Fótbolti

Tottenham mætir Inter í Evrópudeildinni

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson var í byrjunarliði Spurs í síðasta leik og stóð sig vel.
Gylfi Þór Sigurðsson var í byrjunarliði Spurs í síðasta leik og stóð sig vel. Nordic Photos / Getty Images
Sextán liða úrslit Evrópudeildar UEFA hefjast í kvöld. Talsvert af sterkum liðum er eftir í keppninni og þar af þrjú ensk lið. Aðeins Liverpool féll úr leik í 32 liða úrslitunum af ensku liðunum.

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Tottenham eiga erfitt verkefni fyrir höndum, en þeir leika gegn ítalska stórliðinu Inter.

Andre Villas-Boas, stjóri Tottenham, segir að sitt lið muni mæta með sjálfstraustið í botni. Skal engan undra þar sem Spurs hefur aðeins tapað einum af síðustu sextán leikjum sínum og lagði nágranna sína í Arsenal um síðustu helgi. „Þessi leikur kemur á flottum tíma fyrir okkur. Þetta er stórleikur, okkur gengur vel og viljum endilega spila sem flesta stórleiki. Við erum líklega að mæta stærsta félaginu sem eftir er í keppninni."

Inter-liðið er ekki eins sterkt og oft áður. Það hefur misst marga sterka menn upp á síðkastið eins og Wesley Sneijder, Thiago Motta og Lucio.

„Inter er að byggja upp nýtt lið. Þeir hafa fjárfest í ungum strákum en eru samt enn með í þremur keppnum. Ég veit að þessi keppni skiptir þá miklu máli rétt eins og okkur. Við þurfum að varast þeirra styrkleika og þeir verða líka að passa sig á okkur. Við megum helst ekki fá á okkur mark. Strákarnir eru samt spenntir og ég er viss um að þetta verður flottur leikur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×