Í Serbíu kom Íslandsvinurinn Kerem Aktürkoğlu gestunum frá Portúgal yfir eftir sendingu frá hinum danska Alexander Bah. Það má segja að Tyrkir hafi verið allt í öllu hjá Benfica í kvöld en Orkun Kökçü skoraði annað mark liðsins og kom liðinu 2-0 yfir áður en fyrri hálfleik var lokið.
Angólamaðurinn Milson minnkaði muninn fyrir heimamenn undir lok leiks en nær komst Rauða stjarnan ekki og lauk leiknum með 2-1 sigri Benfica.

Í Hollandi voru Þýskalandsmeistarar Leverkusen í heimsókn og gengu þeir hreinlega frá leiknum í fyrri hálfleik en öll fjögur mörkin voru skoruð áður en honum lauk. Florian Wirtz kom gestunum yfir strax á 5. mínútu eftir undirbúning Robert Andrich. Það var svo þegar hálftími var liðinn sem Alejandro Grimaldo tvöfaldaði forystuna eftir sendingu frá Jeremie Frimpong.
Wirtz var aftur á ferðinni sex mínútum síðar og aftur var það Frimpong sem lagði markið upp. Á lokamínútu fyrri hálfleiks gerði Timon Wellenreuther hræðileg mistök í marki Feyenoord þegar honum tókst að slá boltann í eigið net og staðan 0-4 í hálfleik.
Leverkusen score four! 🤩#UCL pic.twitter.com/ibqH5Ph8dz
— UEFA Champions League (@ChampionsLeague) September 19, 2024
Um miðbik síðari hálfleik héldu heimamenn að þeir hefðu fengið vítaspyrnu en eftir að dómari leiksins skoðaði atvikið betur í myndbandsskjánum á hliðarlínunni ákvað hann að ekki væri um brot að ræða.
Ekki löngu síðar héldu heimamenn að þeir hefðu minnkað muninn en flaggið fór á loft og lauk leiknum með 4-0 sigri gestanna. Benfica og Leverkusen byrja Meistaradeildina þetta árið því með góðum sigrum.