Ásgeir
Iceland Airwaves-hátíðin
Silfurberg, Hörpu
Ásgeir steig á stokk í Hörpu á laugardag og var þétt staðið í Silfurbergi. Þó von sé á endurútgáfu hinnar frábæru plötu, Dýrð í dauðaþögn, á næsta ári á ensku þá kaus Ásgeir að syngja á íslensku fyrir þá fjölmörgu Íslendinga sem fjölmenntu á tónleikanna.
Hæfileikar Ásgeirs eru ótvíræðir og frammistaða hans í Hörpu var eftir því. Söngur hans frábær að vanda og flutningur hljómsveitarinnar fumlaus. Ásgeir lék einnig ný lög á tónleikunum, m.a. lagið Lupin Intrugie sem kom út á smáskífu kappans í sumar. Fallegt lag í anda þeirra sem komu út á fyrstu plötu kappans.
Tónleikarnir voru sem sálræn afslöppun. Fallegar melódíur og söngur Ásgeirs leið um salinn og sálarró færðist yfir undirritaðan í nokkrum lögum.
Sem fyrr var Ásgeir fámáll á milli laga. Það er það eina sem hægt er að setja út á tónleikanna sem að öllu öðru leyti voru fyrsta flokks.
Niðurstaða: Frábærir tónleikar þar sem tónlistin var í aðalhlutverki.
Sálarró Ásgeirs
