Körfubolti

Drekarnir einum sigri frá undanúrslitunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Bæringsson og Jakob Örn Sigurðarson.
Hlynur Bæringsson og Jakob Örn Sigurðarson. Mynd/Valli
Hlynur Bæringsson og Jakob Örn Sigurðarson áttu báðir flottan leik þegar Sundsvall Dragons komst í 2-0 á móti 08 Stockholm HR í átta liða úrslitum sænska körfuboltans. Drekarnir geta tryggt sér sæti í undanúrslitum með sigri á heimavelli í næsta leik. Það er hinsvegar jafnt í einvígi Pavel Ermolinskij og félaga í Norrköping Dolphins.

Sundsvall Dragons vann átta stiga sigur á 08 Stockholm HR á útivelli í kvöld, 98-90. Hlynur og Jakob voru saman með 43 stig, 18 fráköst og 10 stoðsendingar. Hlynur var með 17 stig, 13 fráköst og 8 stoðsendingar en Jakob skoraði 26 stig og var stigahæsti leikmaður liðsins.

Sundsvall Dragons var 9 stigum undir í lok þriðja leikhluta en tókst að snúa við leiknum og tryggja sér sigur með því að vinna þrettán síðustu mínúturnar 27-10.

Borås Basket náði að jafna einvígið á móti Pavel Ermolinskij og félögum í Norrköping Dolphins með því að vinna sannfærandi 24 stiga heimasigur í kvöld, 104-80. Norrköping vann fyrsta leikinn 94-85.

Pavel var með 10 stig og 9 fráköst á 27 mínútum í kvöld en hann hitti meðal annars úr báðum þriggja stiga skotum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×