Fótbolti

Þýsku landsliðsmennirnir fá þrjár milljónir fyrir hvern leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mesut Ozil.
Mesut Ozil. Mynd/Nordic Photos/Getty
Leikmenn þýska landsliðsins í knattspyrnu spila fyrir meira en þjóðarstoltið þegar þeir keppast við að tryggja þýska landsliðinu sæti á HM 2014 í Brasilíu. Þýska knattspyrnusambandið gaf það út í dag að hver leikmaður muni fá 20 þúsund evrur fyrir hvern leik í undankeppninni.

20 þúsund evrur eru rúmlega þrjár milljónir íslenskra króna og leikirnir í undankeppninni eru tíu talsins þannig að leikmaður gæti fengið meira en 30 milljónir í vasann spili hann alla leikina.

Það fylgir reyndar sögunni að leikmennirnir fá ekki þennan pening nema ef að þýska liðið komist upp úr sínum riðli. Þjóverjar eru í riðli með Svíum, Írum, Austurríkismönnum, Kasökum og Færeyingum.

Þjóðverjar unnu tvo fyrstu leiki sína með markatölunni 5-1 en framundan eru leikir á móti Írum og Svíum sem unnu bæði fyrsta leik sinn í undankeppninni.

Þýsku leikmennirnir fengu sömu upphæð fyrir undankeppni HM 2010 en allir leikmenn fá það sama fyrir hvern leik hvað sem þeir gera inn á vellinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×