Fótbolti

Raul skoraði tvö fyrir Schalke | Er ekki enn búinn að framlengja

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Raul Gonzalez var vel fagnað í dag.
Raul Gonzalez var vel fagnað í dag. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Spánverjinn Raul Gonzalez skoraði tvö fyrstu mörkin í 3-0 sigri Schalke á Hannover í þýsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag en með sigrinum er Schalke með góð tök á þriðja sæti deildarinnar.

Raul skoraði fyrra markið sitt með skalla á 6. mínútu eftir sendingu Farfan en það síðara skoraði hann á 47. mínútu eftir veggspil við Farfan. Hollendingurinn Klaas-Jan Huntelaar innsiglaði sigurinn á 63. mínútu eftir þriðju stoðsendingu Farfan í leiknum.

Stuðningsmenn Schalke sungu nafn Raul Gonzalez þegar hann honum var skipt útaf á 71. mínútu leiksins en spænski framherjinn hefur ekki enn framlengt samning sinn við þýska liðið. Raul er orðinn 34 ára gamall og Schalke hefur boðið honum eins árs samning.

„Hann er fjölskyldumaður þannig að ég gæti ímyndað mér að hann tæki frekar tveggja ára tilboði fengi hann það annarsstaðar. Ég vona samt að hann verði áfram hjá okkur," sagði Huub Stevens, þjálfari Schalke.

Schalke er sex stigum á eftir Bayern München sem er í 2. sætinu en fimm stigum á undan Borussia Moenchengladbach sem er í 4. sæti. Það eru fimm umferðir eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×