
Hann segir Skógafoss vera í siglingum milli Íslands og Norður-Ameríku, með viðkomu í Everett í nágrenni Boston og á Nýfundnalandi. „Þetta er hrein viðbót við flutningsgetu okkar á þessari leið því áður var Reykjafoss með áætlun á sömu leið og heldur því áfram," segir Matthías.
En hvað er helst verið að flytja á þessari leið? „Það er fiskur að miklu leyti, sem er verið að flytja bæði frá Nýfundnalandi til Evrópu og frá Íslandi til Boston og svæðisins þar í kring. Einnig eru flutningar vegna stóriðjuframkvæmda á Nýfundnalandi. Þar er verið að byrja á stórri vatnsaflsvirkjun og svo er þar námuvinnsla og stóriðja. Það er því mikil eftirspurn eftir flutningsgetu milli Nýfundnalands og Evrópu sem við náum að tengja gegnum Ísland. Vatnsútflutningur hefur líka verið að aukast vestur um haf."
Matthías vekur líka athygli á Eport-þjónustuvefnum hjá Eimskip, sem hann segir byltingu í bættri þjónustu við viðskiptavini fyrirtæksins. Hann er beðinn að lýsa því fyrirbæri nánar. „Eport má líkja við heimabanka. Það er síða sem viðskiptavinir okkar fara inn á með aðgangsorði og þar getur fólk skoðað allar upplýsingar um sendingarnar sínar, séð hvar þær eru staddar, fylgst með bókunum og skoðað reikningsstöðuna. Síðan er mjög notendavæn og við höfum fengið mjög jákvæð og góð viðbrögð frá viðskiptavinum okkar með hana. Enda fer þeim viðskiptavinum sem nýta sér Eport ört fjölgandi."