Fótbolti

Höness búinn að missa þolinmæðina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Uli Höness, forseti Bayern München, er búinn að fá sig fullsaddann af þeim hópi stuðningsmanna liðsins sem gagnrýna markvörðinn Manuel Neuer við hvert tækifæri.

Ákveðinn harðkjarnahópur stuðningsmanna liðsins var afar óánægður með að fá Neuer til liðs við félagið. Skiptir engu þótt hann sé einn besti markvörður heims og hefur staðið sig gríðarlega vel með Bayern síðan félagaskiptin gengu í gegn í sumar.

Neuer er uppalinn leikmaður Schalke og var sjálfur oft að blanda geði við eldheita stuðiningsmenn liðsins, á meðan hann lék með félaginu.

„Ég hef hugsað um þetta í nokkurn tíma," sagði Höness en hann fékk nóg eftir að púuað var á Neuer á ársfundi Bayern München í vikunni. Bayern tilkynnti þá að félagið hafi hagnast um 1,3 milljónir evra á síðasta rekstrarári.

„Á ég bara að halda kjafti? Nei, ég get það ekki. Þeim sem finnst að það hafi verið rangt af að fá besta markvörð heims til Bayern München ættu bara að halda sér heima. Hann er ekki bara með góðar hendur heldur líka öflugan heila. Það hafa verið margir leikmenn hér í gegnum tíðina sem eru ekki jafn hæfileikaríkir og hann."

Ársfundurinn var að öðru leyti jákvæður en þá var einnig tilkynnt að Christian Nerlinger verði áfram yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu, til ársins 2014. Fjármálastjórinn Karl Hopfner var einnig ánægður.

„Okkur tókst ekki að vinna neina titla á síðasta tímabili og svo er ríkjandi fjármálakrísa í heiminum. En okkur tókst samt sem áður að skila hagnaði, enn einu sinni."

Neuer og félagar verða í eldlínunni í dag þegar að Bayern mætir Dortmund í toppslag þýsku úrvalsdeildarinnar. Leikurinn hefst klukkan 17.30 og verður lýst beint á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×