Skoðun

Er um að ræða ólögmæta mismunun?

Átta hæstaréttarlögmenn skrifar
Spurt er hvort innistæðueigendum hafi verið mismunað þannig að brjóti í bága við 4. gr. EES-samningsins? Svo er ekki að sjá.

Aðgerðir íslenska ríkisins voru framkvæmdar til að stuðla að almennum efnahagsstöðugleika. Um var því að ræða almennar efnahagsaðgerðir. Það má því ætla að þær falli sem slíkar utan gildissviðs 4. gr. EES-samningsins.

Þess utan getur 4. gr. samningsins aðeins átt við um tilvik sem telja má sambærileg. Því virðist ekki til að dreifa hér. Ástæðan er sú að innistæðueigandi í íslensku bankaútibúi á aðild að íslenska greiðslumiðlunarkerfinu en ekki sá sem á innistæðu í útlendu útibúi. Það er því engin ástæða til að meðhöndla þessa aðila með sambærilegum hætti, þvert á móti.

Þá verður að geta þess, að í öllu falli átti engin bein mismunun sér stað. Allir útlendir eigendur innistæðna í íslenskum bankaútibúum fengu sömu meðhöndlun og þeir íslensku. Yfir því er ekki hægt að kvarta. Það þýðir að jafnvel þótt einhvers konar óbein mismunun teldist hafa átt sér stað þá verður hún réttlætt með því neyðarástandi sem brugðist var við.

Þetta eru væntanlega ástæður þess að Eftirlitsstofnun EFTA telur mismunun enga þýðingu hafa nema upp að lágmarki innistæðutrygginga, eða 20.887 evrur á mann. Sjónarmið um að veruleg hætta sé á því að Ísland verði látið borga eitthvað umfram það eiga því ekki rétt á sér. Í raun má frekar áætla að verulegar líkur sé á því að Ísland þurfi ekkert að greiða þegar upp verður staðið.

Fellum Icesave-lögin.

Brynjar Níelsson hrl.

Björgvin Þorsteinsson hrl.

Haukur Örn Birgisson hrl.

Jón Jónsson hrl.

Reimar Pétursson hrl.

Sveinn Snorrason hrl

Tómas Jónsson hrl.

Þorsteinn Einarsson hrl.




Skoðun

Sjá meira


×