Skoðun

Skynsemin ræður

Magnús Orri Schram skrifar
Ef þjóðin segir nei í kosningunum 9. apríl er verið að vísa Icesave til dómstóla. Fyrir dómstólum verður líklega erfiðast fyrir íslenska ríkið að komast framhjá svokallaðri mismunun á grundvelli þjóðernis en við fall bankanna 2008 voru innstæður í innlendum útibúum tryggðar að fullu á meðan innstæður í erlendum útibúum nutu engrar tryggingar. Þetta er að mati eftirlitsstofnunar með EES-samningnum óbein mismunun á grundvelli þjóðernis og því brot á samningnum.

Skiptar skoðanir eru um þetta atriði meðal íslenskra lögmanna en þeir hæstaréttarlögmenn sem hvað harðast börðust gegn fyrri samningi telja að áhætta og kostnaður sé nú í slíku lágmarki að það sé mun meiri áhætta fólgin í dómsmáli en því að semja. Seðlabanki Íslands telur að nei í þjóðaratkvæði um Icesave þýði veikara gengi, lægri kaupmátt og meiri verðbólgu.

Fyrir liggur að afleiðingar á lánshæfi, aðgengi að fjármálamörkuðum og vaxtakjör gætu orðið alvarlegar fyrir Íslendinga. Þá gæti Ísland staðið uppi með dóm um greiðsluskyldu án fyrirliggjandi samnings um vexti, endurgreiðslur eða önnur kjör en ljóst er að sambærilegir eða lægri vextir verða vart í boði.

Með þverpólitískri samninganefnd tókst að lágmarka og festa niður eins og kostur er alla helstu kostnaðar- og áhættuþætti. Vextir eru í lágmarki, höfuðstóll miðast aðeins við lágmarkstryggingu, engin ríkisábyrgð kemur til fyrr en þrotabú Landsbankans hefur gengið upp í skuldbindingar Tryggingasjóðsins, efnahagslegir og lagalegir fyrirvara vegna stóráfalla eru til staðar og greiðslutími bæði vaxta og uppgjörs er miðað við þarfir og getu Íslands.

Fari málið fyrir dómstóla eru allir þessir þættir úr höndum okkar Íslendinga svo óvissan um endanlegan kostnað og kjör er margfalt meiri.  Íslendingar eiga að meta eigin hagsmuni og taka þá ákvörðun sem er skynsamlegust fyrir hagsmuni efnahags- og atvinnulífs til skemmri og lengri tíma. Við þær aðstæður þarf að vega og meta kostnað og áhættu af fyrirliggjandi samningi á móti áhættu og mögulegum kostnaði við áframhaldandi átök og dómsmál. Það er ekki tilviljun að aukinn meirihluti þingmanna og þeir sérfræðingar sem unnu sleitulaust að lausn á þverpólitískum grunni mæla eindregið með samningum frekar en dómstólaleið.

 




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×