Skoðun

Við búum öll í gulri renni­braut

Guðmundur Andri Thorsson skrifar

Ýmsir velta fyrir sér um þessar mundir hvernig standi á því að svo illa er komið fyrir sveitarfélaginu Álftanesi. Sjálfur ber ég ekki skynbragð á fjármál og get ekkert um þau sagt, en óneitanlega hvarflar að manni að lítill rekstrargrundvöllur kunni að vera fyrir því að svefnbær með engri atvinnustarfsemi myndi sjálfstætt sveitarfélag, frekar en til dæmis Árbærinn eða Grafarvogur. Skuldbindingar vegna yfirstandandi og komandi framkvæmda hafa líka augljóslega ekki tekið mið af þessari einföldu staðreynd: föstum tekjum sveitarfélagsins.

Og almennt talað: Þó að í mismiklum mæli sé enn sem komið er, súpum við öll seyðið af því að landinu hefur áratugum saman verið stýrt af lögfræðingum sem virðast hafa impróvíserað lög og reglur, siði og viðskiptahætti frá degi til dags, með þeim afleiðingum að íslenskt samfélag er nú gjörvallt einn útúrsnúinn vafningur.

Sagan af rennibrautinniMér verður stundum hugsað til rennibrautarinnar. Við búum fjölskyldan við hafið á norðanverðu nesinu, smáspöl frá aðalbyggðinni og höfum stundum þurft, íbúarnir í götunum hérna, að ræskja okkur svolítið til að ná eyrum bæjaryfirvalda, sem voru meira með hugann við byggð sem var ekki til - hinn nýja miðbæ: „uppbygginguna".

Ekki var nú kröfugerðin mikil: börnin hérna vildu örlítið betri Róló; gobbuhesta sem virkuðu, skárri sandkassa og umfram allt almennilega rennibraut, enda naumast til sá Róló með sjálfsvirðingu sem ekki er með rennibraut. Að öðru leyti var þetta stór og fínn Róló: með smá brekku þar sem var gaman að renna sér á sleðum á veturna og grasflöt þar sem hægt var að fara í alls konar sjálfsprottna leiki: Brennó, Kýló, meira að segja gekk amerískt Rúbbí-æði eitt sumarið. Það vantaði bara almennilega rennibraut. Krakkarnir söfnuðu undirskriftum og fóru á fund bæjarstjórans, sem tók við erindinu án þess að koma til hugar að bregðast við því. Svo kom annar bæjarstjóri sem líka var yfir það hafinn að hlusta á krakka suða um rennibraut - en þriðji bæjarstjórinn ákvað að bregðast við óskunum. Á eigin forsendum: Sett var pínulítil rennibraut úr plasti - og eiginlega verri en engin - en Rólóinn að öðru leyti skipulagður upp á nýtt af stórhug sem enginn hafði beðið um: grasflötin litla þar sem allir krakkar höfðu leikið sér saman óháð aldri og kyni var malbikuð og þar sett upp himinhá karfa sem ég veit ekki til að nokkru sinni hafi verið notuð enda miðuð við tveggja metra slöttólfa; skorið var neðan af sleðabrekkunum góðu og sett í staðinn listrænt grjót, sem kannski er flottur landslagsarkítektúr en þar mun aldrei neinn renna sér framan. Rólóinn er tómur, dautt svæði, en sjálfsagt voða fínn. Með pínkulítilli plastrennibraut.

Gott á ykkur!Rennibraut, einmitt. Var ekki einhver að biðja um rennibraut? Jú, eitthvað rámaði menn í það, og ákváðu að sýna nú engan smásálarskap heldur reisa veglegustu rennibraut landsins við sundlaugina. Hún er afskaplega gul og maður er þrjú ár á leiðinni upp í hana. Hún er orðin helsta kennileiti þessa samfélags sem áður var þekkt fyrir lágreista og snotra byggð og fagra náttúru.

Og nú búum við öll í gulri rennibraut, svo vísað sé óbeint í gamla Bítlalagið. Svona fer þegar ekki er hlustað á fólkið; þarfir fólksins eru nefnilega ósköp temmilegar. Því fólk er yfirleitt heldur gott - meira að segja fólk sem gerir skyssur. Jónas Kristjánsson - einhver umsvifamesti lastari þjóðarinnar sem sumir líta til í því skyni að fá af því fregnir hvað þeim eigi að finnast - fer á bloggi sínu þann 21.02. hinum verstu orðum um Álftnesinga og vill augljóslega kveða snarlega niður lofsverða viðleitni íbúa hér til að bera hönd fyrir höfuð sér með stofnun hagsmunasamtaka; Jónas telur yfirvofandi hörmungar rétt mátulegar á pakkið. Vantar bara að hann skrifi: „helvítin ykkar". Hann horfir fullur fyrirlitningar af sínu sómakæra Seltjarnarnesi og átelur íbúa Álftaness harðlega fyrir að sjá nú fram á stórauknar álögur, minni þjónustu og verðhrun eigna. Það hvarflar ekki að honum að þeim byrðum eigi að dreifa. Hann er eins og auðugur danskur pensjónisti í Gladsaxe að fussa yfir Íslendingum.

Farvegur sjálfshatursSvipuðum viðhorfum hefur maður fengið að finna fyrir furðu víða í þjóðlífinu og þau eru eiginlega verst af öllu: þessi skortur á samkennd, þessi andúð, þessi ófrjóa reiði - þessi Þórðargleði. Hér á nesinu búa ekki verðbréfagosar, aflandseyjaprinsar, skortstöðuhákar eða vafningafurstar, hérbýr ósköp venjulegt fólk úr flestum lögum þjóðfélagsins, upp til hópa duglegt og sómakært fólk, sem ekkert hefur séð af þessum ævintýralegu upphæðum sem því er tjáð að það skuldi, og botnar enda ekkert í því hvernig þær gátu vaxið svona og margfaldast: þetta er okkar Icesave. Fólk sem verður fyrir fjárhagslegum skakkaföllum af völdum aðila sem það hefur skrifað upp á fyrir af misráðnu trausti þarf ekki fyrst og fremst á því að halda að heyra hvað það sé miklir vitleysingar - að minnsta kosti ekki átján sinnum í röð. Það þarf stuðning og skýrar áætlanir.

Svo illa er komið fyrir þjóðinni að sumu fólki virðist fróun í því að sjá sveitarfélag sem er enn verr statt en þjóðfélagið almennt, og finnur jafnvel einhvers konar sjálfshatri farveg í því að veitast að íbúum Álftaness fyrir að hafa kosið til trúnaðarstarfa fólk sem þeir héldu að myndi varðveita sérstöðu samfélagsins og náttúrufar en tók upp á því að reisa sér og öðrum rennibraut um öxl.

En við búum öll í gulri rennibraut. Vandamálin hér á nesinu bíða handan við næsta leiti hjá öðrum sveitarfélögum: allt þjóðfélagið var keyrt áfram á óraunhæfum lánum og lánavæntingum, pappírsauði, óskipulagi, glundroða - klikkun. Þegar við getum loksins slitið okkur frá Icesave-málinu þurfum við að horfast - öll - í augu við að skuldir íslensks samfélags eru yfirþyrmandi. Efnahagskerfið hér reyndist í grundvallaratriðum reist á röngum forsendum. Það er okkar vandi. Okkar allra.

Nema náttúrlega Jónasar Krist­jáns­sonar.

Tekjugrundvöllurinn brostinnSmeykur er ég um að tómt mál sé að tala um að Álftanes eigi sér raunhæfa framtíð sem sjálfstætt sveitarfélag, eins og komið er málum. Það er samfélaginu lífsnauðsyn að tengjast stærri einingu og þar horfum við mörg til Reykjavíkur, enda hefur Garðabær enga burði - og hvað þá löngun til - að taka yfir rekstur samfélagsins hér. Ríkisstjórnin hefur tekið þann pól í hæðina að „leita allra leiða til að aðlaga rekstur sveitarfélagsins að þeim tekjugrundvelli sem er til staðar", eins og ráðherrann Kristján Möller orðaði það í umræðum sem Magnús Orri Schram stóð fyrir á alþingi um vanda sveitarfélagsins: þetta er vissulega loðmullulegt orðalag, en þó hátíð hjá hinu sem kom í framhaldinu og minnir á að stjórnmálamenn geta verið óskiljanlegri en Foucault: „Það getur ekki verið öðruvísi en að hægt sé að ætlast til þess að aðrir greiði fyrir þá þjónustu…" Hafi ráðherrann ætlað að segja - sem ég óttast - að ekki sé hægt að ætlast til þess að samfélagið í heild sinni hlaupi undir bagga með Álftnesingum til að halda eðlilegu þjónustustigi í skólamálum og öðru æskulýðs- og velferðarstarfi og að sveitarfélagið eigi bara að fá að verða „annars flokks" eins og Magnús Orri varaði við - þá er stefna Samfylkingarinnar í velferðarmálum önnur en mig minnti og nær amerískri repúblikanasiðfræði Jónasar Kristjánssonar. En því fyrr sem ráðamenn átta sig á því að „tekjugrundvöllurinn" er hreinlega ekki „til staðar" í svo skuldsettu sveitarfélagi einu og óstuddu - því betra.

Höfundur er rithöfundur og íbúi á Álftanesi.




Skoðun

Sjá meira


×