Hagsmunir viðskiptalífsins voru teknir fram yfir fræðilega hlutdrægni í skýrslum háskólamanna í aðdraganda bankahrunsins. Vinnuhópurinn um starfshætti og siðferði segir að skýrsla Frederics Mishkin, prófessors við Columbia-háskóla, og Tryggva Þórs Herbertssonar, þáverandi forstöðumanns Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, frá árinu 2006 hafi beinlínis unnið íslensku samfélagi ógagn.
Skýrslan, sem samin var að beiðni Viðskiptaráðs Íslands, fjallaði um fjárhagslegan stöðugleika á Íslandi. Hún birtist í framhaldi af tveimur erlendum skýrslum sem gagnrýndu íslensku bankana. Bent er á að höfundarnir hafi ekki lagst í sjálfstæðar rannsóknir á bönkunum. Þeir hafi tekið gagnrýnislaust upp áhættumat Fjármálaeftirlitsins og fullyrt að ólíklegt væri að alvarleg vandamál myndu steðja að íslenska bankakerfinu.
Vinnuhópurinn bendir á að skýrslan hafi haft skaðleg áhrif því hún fegraði stöðu íslensku bankanna á viðkvæmum tímum. Í kjölfarið hafi þeir átt greiðari leið að erlendu fjármagni, orðið stærri og erfiðara að taka á þeim.
Vinnuhópurinn kemst að þeirri niðurstöðu að hættan á hagsmunaárekstrum í háskólasamfélaginu aukist með auknum styrkveitingum einkaaðila. Gagnrýnt er hversu lítið háskólasamfélagið tók þátt í opinberri umræðu í aðdraganda hrunsins. Fram kemur að styrkveitingar viðskiptalífsins til háskólanna hafi hugsanlega dregið úr hvata fræðimanna til gagnrýninnar umræðu.
- sbt
