Gengi hlutabréfa í Kaupþingi sem skráð eru í kauphöllina í Stokkhólmi í Svíþjóð hafa lækkað um 0,41 prósent frá upphafi dags. Þetta er í samræmi við þróunina á helstu hlutabréfamörkuðum á meginlandi Evrópu og Norðurlöndunum eftir mikla hækkun síðan fyrir páska.
Gengi bréfa í bankanum hefur hækkað um rúm tuttugu prósent síðan fyrir páska ef litið er til lægsta gildis þá og hæsta gildis nú.
Mikil viðskipti voru með bréf Kaupþings í gær, bæði hér og í Svíþjóð, en gengi bréfa í bankanum hækkaði um tæp tíu prósent. Sænski bankinn SEB Enskilda var umsvifamikill kaupandi í gær og var talið að bæði bankinn hafi séð sér hag í kaupum á bréfunum auk þess sem skortsalar hafi verið að loka stöðum sínum og kaupa þau.
Vísitölur á Norðurlöndunum hafa lækkað lítillega og hækkað það sem af er dags. OMX-30 hlutabréfavísitalan í Svíþjóð hefur lækkað um 0,16 prósent, OMX-25 vísitalan í Finnlandi um 0,25 prósent en C-20 vísitalan í Danmörku hækkað lítillega, eða um 0,04 prósent.
Þá hefur FTSE-vísitalan í Bretlandi lækkað um 0,2 prósent, Cac-40 vísitalan í Frakklandi hefur lækkað um 0,07 prósent á meðan Dax vísitalan í Þýskalandi hefur hækkað um 0,12 prósent.
Nikkei-vísitalan í Japan lækkaði um 0,3 prósent við lokun markaða þar í landi í morgun.
Viðskipti hefjast í Kauphöllinni hér eftir rúman hálftíma. Vísitalan hækkaði um 6,16 prósent í gær og hefur aldrei hækkað jafn mikið á einum degi.