Flokkar úr takt við tímann Jón Kaldal skrifar 13. mars 2008 11:30 Stundum hefur verið haft á orði að íslenskt stjórnmálalíf hafi setið eftir þegar viðskiptalíf landsins tók undir sig stökk og innleiddi þau vinnubrögð og viðhorf sem tíðkast í hinum vestræna heimi. Þetta sjónarmið hefur fengið byr undir báða vængi í umræðunni um evru og Evrópusambandið undanfarin misseri. Því hefur jafnvel verið haldið fram að það verði athafnalífið sem að lokum leiði landið í Evrópusambandið en ekki stjórnmálamennirnir, enda hafa þeir upp til hópa forðast það eins og heitan eldinn að taka Evrópuumræðuna föstum tökum. Það er margt til í þessu. Og stjórnmálaflokkarnir eru líka að mjög mörgu öðru leyti úr takt við samtíma sinn. Dvínandi kjörsókn er stundum höfð til vitnisburðar um að fólk hafi minni áhuga á pólitík nú en áður fyrr. Hér skal því haldið fram að þetta sé hreint ekki tilfellið, heldur þvert á móti að pólitískur áhugi sé mikill og almennur. Það sem hefur hins vegar breyst er að þessi áhugi er ekki flokkspólitískur. Vandamál stjórnmálaflokkanna eru að stóru málin sem skildu þá að voru flest afgreidd á tuttugustu öldinni og það síðasta leystist á þessari öld þegar herinn pakkaði saman. Almenn sátt ríkir um að frjáls markaður sé sá grunnur sem öll velmegandi samfélög heimsins byggi tilveru sína á og sama gildir um hvert skuli vera hlutverk hins opinbera í grunnatriðum. Hið opinbera á til dæmis að sjá öllum fyrir heilbrigðisþjónustu og veita jöfn tækifæri til menntunar. Nú er einna helst deilt um tæknilegar útfærslur, hvort eigi til dæmis að auka einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni og skólum landsins. Almenn flokkshollusta við einn flokk til æviloka er örugglega á hröðu undanhaldi. Viðhorf landsmanna til borgarstjórnar Reykjavíkur er dæmi um þetta. Við síðustu meirihlutaskipti var hagsmunum borgarbúa ýtt til hliðar á kostnað gamaldags valdabrölts. Málum sem breið samstaða var um í borgarstjórn, uppbyggingu við Laugaveg og ákvörðun um framtíð Reykjavíkurflugvallar, var fórnað í skiptum fyrir vegtyllur í Ráðhúsinu. Áður fyrr hefðu fylgismenn flokkanna fagnað völdum allir saman með sínu liði. Nú var bróðurparti fólks svo stórlega misboðið að borgarstjórn galt sögulegt afhroð í könnun Capacent á trausti til stofnana samfélagsins. Vandkvæðin sem stjórnmálaflokkarnir standa frammi fyrir eru að þau pólitísku mál sem langmest hreyfa nú við fólki liggja þvert á flokkslínurnar. Þetta eru umhverfismálin, jafnrétti kynjanna, skipulagsmál, málefni innflytjenda og auðvitað afstaðan til Evrópusambandsaðildar. Allt eru þetta stórpólitísk málefni sem er þó snúið að takast á um í gamaldags skotgrafahernaði, á borð við þann sem stjórnmálaflokkarnir hafa svo lengi tamið sér. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Jón Kaldal Mest lesið Okkar lágkúrulega illska Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir Skoðun Andaðu rólega elskan... Ester Hilmarsdóttir Skoðun Ég vildi óska þess að ég hefði hreinlega fengið krabbamein Íris Elfa Þorkelsdóttir Skoðun Öndum rólega – á meðan húsið brennur Magnús Magnússon Skoðun Skólaskætingur Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir Skoðun Halldór 23.8.2025 Halldór Heildstætt heilbrigðiskerfi – hagur okkar allra Alma D. Möller Skoðun Eldri borgarar – áhrif aðildar að Evrópusambandinu (ESB) Þorvaldur Ingi Jónsson Skoðun Þjóðarmorð, fálmandi mjálm eða aðgerðir? Viðar Hreinsson Skoðun Vanþekking eða vísvitandi blekkingar? Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun
Stundum hefur verið haft á orði að íslenskt stjórnmálalíf hafi setið eftir þegar viðskiptalíf landsins tók undir sig stökk og innleiddi þau vinnubrögð og viðhorf sem tíðkast í hinum vestræna heimi. Þetta sjónarmið hefur fengið byr undir báða vængi í umræðunni um evru og Evrópusambandið undanfarin misseri. Því hefur jafnvel verið haldið fram að það verði athafnalífið sem að lokum leiði landið í Evrópusambandið en ekki stjórnmálamennirnir, enda hafa þeir upp til hópa forðast það eins og heitan eldinn að taka Evrópuumræðuna föstum tökum. Það er margt til í þessu. Og stjórnmálaflokkarnir eru líka að mjög mörgu öðru leyti úr takt við samtíma sinn. Dvínandi kjörsókn er stundum höfð til vitnisburðar um að fólk hafi minni áhuga á pólitík nú en áður fyrr. Hér skal því haldið fram að þetta sé hreint ekki tilfellið, heldur þvert á móti að pólitískur áhugi sé mikill og almennur. Það sem hefur hins vegar breyst er að þessi áhugi er ekki flokkspólitískur. Vandamál stjórnmálaflokkanna eru að stóru málin sem skildu þá að voru flest afgreidd á tuttugustu öldinni og það síðasta leystist á þessari öld þegar herinn pakkaði saman. Almenn sátt ríkir um að frjáls markaður sé sá grunnur sem öll velmegandi samfélög heimsins byggi tilveru sína á og sama gildir um hvert skuli vera hlutverk hins opinbera í grunnatriðum. Hið opinbera á til dæmis að sjá öllum fyrir heilbrigðisþjónustu og veita jöfn tækifæri til menntunar. Nú er einna helst deilt um tæknilegar útfærslur, hvort eigi til dæmis að auka einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni og skólum landsins. Almenn flokkshollusta við einn flokk til æviloka er örugglega á hröðu undanhaldi. Viðhorf landsmanna til borgarstjórnar Reykjavíkur er dæmi um þetta. Við síðustu meirihlutaskipti var hagsmunum borgarbúa ýtt til hliðar á kostnað gamaldags valdabrölts. Málum sem breið samstaða var um í borgarstjórn, uppbyggingu við Laugaveg og ákvörðun um framtíð Reykjavíkurflugvallar, var fórnað í skiptum fyrir vegtyllur í Ráðhúsinu. Áður fyrr hefðu fylgismenn flokkanna fagnað völdum allir saman með sínu liði. Nú var bróðurparti fólks svo stórlega misboðið að borgarstjórn galt sögulegt afhroð í könnun Capacent á trausti til stofnana samfélagsins. Vandkvæðin sem stjórnmálaflokkarnir standa frammi fyrir eru að þau pólitísku mál sem langmest hreyfa nú við fólki liggja þvert á flokkslínurnar. Þetta eru umhverfismálin, jafnrétti kynjanna, skipulagsmál, málefni innflytjenda og auðvitað afstaðan til Evrópusambandsaðildar. Allt eru þetta stórpólitísk málefni sem er þó snúið að takast á um í gamaldags skotgrafahernaði, á borð við þann sem stjórnmálaflokkarnir hafa svo lengi tamið sér.