Skoðun

Náttúruvernd

Umhverfisráðherra hefur nýverið lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu um náttúruverndaráætlun til næstu 5 ára. Samkvæmt tillögunni er friðuðum svæðum í náttúru Íslands enn fjölgað.

Það er mikilvægt að við umgöngumst okkar víðfeðmu villtu náttúru af virðingu. Komandi kynslóðir þurfa að geta treyst því að geta nýtt ríkar náttúruauðlindir landsins og mikilvægar atvinnugreinar, s.s. ferðaþjónustu, sem byggja að miklu leyti á óspilltri og tignarlegri náttúru landsins. Á Íslandi verður náttúruvernd alltaf samspil nýtingar og friðunar náttúruauðlinda okkar til lands og sjávar. Framtíð þjóðarinnar byggist á skynsamlegri nýtingu auðlindanna.

Við höfum á undanförnum árum sýnt gott fordæmi í þeim efnum. Fáum þjóðum hefur tekist betur upp við að viðhalda sterkum nytjastofnum hafsins. Á það við um okkar helstu fiski- og hvalastofna. Á landi höfum við þegar verndað u.þ.b. 20% alls landsins, um 19.500 ferkílómetra eða tæpar 2 milljónir hektara. Í samanburði myndi nýting á okkar helstu fallvötnum og háhitasvæðum til virkjanaframkvæmda spanna u.þ.b. 2% af landinu. Einhversstaðar liggur eðlilegt hlutfall milli nýtingar og verndunar og ekki verður annað sagt en að við höfum almennt látið náttúruna njóta vafans. Ekki má gleyma því að margar af okkar náttúruperlum og vinsælir ferðamannastaðir hafa orðið til við virkjanaframkvæmdir. Má þar m.a. nefna Elliðavatn, Bláá Lónið og Kárahnjúkavirkjun.

Nú fer umrædd tillaga til umsagnar þeirra aðila sem gagnrýna munu hana m.a. út frá nýtingarsjónarmiðum. Það er þjóðinni mikilvægt að hlustað verði vel á þá gagnrýni og að tillit verði tekið til þeirra sjónarmiða sem þar munu koma fram. Það er ekki síður mikilvægt að þeir sem telja sig til forystu í umhverfismálum hafi í huga mikilvægi nýtingu náttúruauðlinda fyrir efnahag landsins og atvinnusköpun.

Það hefur einkennt umræðu um þessi mál of mikið að þeir sem telja sig til forystu á þeim vettvangi hafa lítið verið til tals um mikilvæg nýtingarsjónarmið.

Höfundur er alþingismaður.



 




Skoðun

Sjá meira


×