Viðskipti erlent

Lækkanir á flestum fjármálamörkuðum

Úr kauphöllinni í New York í Bandaríkjunum.
Úr kauphöllinni í New York í Bandaríkjunum.

Gengi hlutabréfa á bandarískum fjármálamarkaði lækkaði talsvert við opnun viðskipta í dag. Helstu vísitölurnar hækkuðu nokkuð í gær en tóku dýfu í dag. Skýringanna er að leita í áhyggjum manna um að samdráttur á bandarískum fasteignalánamarkaði hafi haft áhrif á alþjóðamarkaði.

Dow Jones hlutabréfavísitalan lækkaði um 199,24 punkta í dag, eða 1,5 prósent. Standard & Poor's fór niður um 1,7 prósent en Nasdaq-vísitalan um 1,4 prósent. Vísitölurnar hækkuðu um allt að 2,1 prósent við lokun markaða vestanhafs í gær.

Gengi bréfa í Evrópu og helstu vísitölur í álfunni hafa sömuleiðis lækkað í dag eftir að evrópski seðlabankinn greindi frá því að hann hyggðist veita fjármálafyrirtækjum sem hafi tapað fjármunum á bandarískum fasteignalánamarkaði stuðning til að koma í veg fyrir að áhrifa af honum gæti í Evrópu.

Íslenskur hlutabréfamarkaður hefur ekki farið varhluta af lækkanaferlinu en bréf í ellefu félögum af þrettán hafa lækkað á Aðallista Kauphallarinnar í dag. Þá hefur Úrvalsvísitalan lækkað um 2,16 prósent það sem af er dags og stendur í 8.234 stigum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×