Viðskipti innlent

Talsverður viðsnúningur hjá 365

365 hf tapaði 35 milljónum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins. Þetta er talsverður viðsnúningur frá síðasta ári þegar félagið skilaði tapi upp á 441 milljónir króna af sambærilegri starfsemi. Ari Edwald, forstjóri 365, segir ánægjulegt að sjá rekstrarbata koma fram á fyrsta ársfjórðungi og að rekstur félagsins sé samkvæmt áætlun.

Rekstrarhagnaður fyrirtæksins fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) á tímabilinu nam 139 milljónum króna samanborið við 76 milljóna króna rekstrartap á sama tíma í fyrra.

Eigið fé samstæðunnar, sem samanstendur af 365 miðlum ehf., Senu ehf., Sagafilm ehf., D3 ehf. og Inn hf., nam 6.604 milljörðum króna í lok tímabilisins og var eiginfjárhlutfall 36,6 prósent. Þá nam handbært fé frá rekstri og markaðverðbréf 207 milljónum króna í lok fjórðungsins.

Ari Edwald, forstjóri 365, segir í uppgjöri félagsins, að reksturinn sé samkvæmt áætlun. „Undanfarin misseri hafa verið tími mikilla umbreytinga hjá 365 hf. Vinna við þessar breytingar hefur verið tímafrek, kostnaðarsöm og reynt mikið á starfsfólk félagsins. Það er því ánægjulegt að sjá rekstrarbata koma fram á fyrsta ársfjórðungi," segir hann og bætir við að skuldir félagsins hafi verið lækkaðar mjög hratt.

Uppgjör 365





Fleiri fréttir

Sjá meira


×