Viðskipti innlent

Mjög dregur úr vöruskiptahallanum

Vöruskipti við útlönd voru óhagstæð um 9,1 milljarð króna á fyrstu þremur mánuðum ársins. Þetta er umtalsverð breyting frá sama tíma í fyrra en þá nam hallinn á vöruskiptum 36,2 milljörðum króna. Af þessum þremur mánuðum nam halli á vöruskiptum í mars 4,5 milljörðum króna. Til samanburðar voru vöruskiptin óhagstæð um 18,2 milljarða krónur fyrir ári, samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands.

Vörur voru fluttar út fyrir 79,3 milljarða krónur á fyrstu þremur mánuðum ársins en inn fyrir 88,3 milljarða krónur. Sé miðað við sama tíma í fyrra batnaði halli á vöruskiptum á þessum fyrsta ársfjórðungi um 27,1 milljarð króna.

Þá voru vörur fluttar út fyrir 29,5 milljarða króna og inn fyrir 34,0 milljarða króna í mars.

Mesta verðmæti útflutnings á fyrsta ársfjórðungi lá í sjávarafurðum, eða 44 prósent. Verðmæti þeirra jókst um 10 prósent á milli ára.

Þar á eftir komu iðnaðarvörur, ál, sala á flugvélum, frystum flökum og kísiljárni.

Á tímabilinu varð hins vegar samdráttur á innflutningi fólksbíla og flugvéla en á móti kom aukning í innflutningi á fjárfestingar- og neysluvöru annarri en mat- og drykkjarvöru, að sögn Hagstofunnar.

Hagstofa Íslands






Fleiri fréttir

Sjá meira


×