Skoðun

Rafmagnað andrúmsloft

Vissulega var hægt að segja að pólitískt andrúmsloft í landinu hafi verið rafmagnað þegar Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra kynnti ákvörðun sína og ríkisstjórnar um að þorskkvóti fyrir næsta fiskveiðiár yrði skorinn niður um þriðjung. Ákvörðunin kallaði á kjark og hugrekki hjá ráðherranum sem kemur frá Vestfjörðum og er þingmaður landsbyggðarinnar sem á afar mikið undir veiðum og vinnslu á þorski.

Ekkert kemur í stað 60.000 tonna af þorski nema uppbygging stofna til lengri tíma. Vonandi verðum við farin að veiða helmingi meiri þorsk eftir áratug eða svo. Okkar í ríkisstjórn og á Alþingi er að taka höggið af landsbyggðinni einsog kostur er. Vel útfærðar og kraftmiklar aðgerðir í samgöngum, fjarskiptum, menntun og flutningi starfa án staðsetningar út á land eru á meðal þeirra og verða kynntar ítarlega á næstunni.



Annað sem tengist uppbyggingu nýrrar starfsemi utan höfuðborgarinnar eru stórhuga hugmyndir Keilis og Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar um nýjan skóla og nemendagarða á vallarsvæðinu á Miðnesheiði. Talsvert hefur verið fjallað um bráðabirgðalög sem ríkisstjórnin setti fyrir helgi sem veita aðlögunartíma til þriggja ára til að skipta út rafkerfi á svæðinu að því uppfylltu að fyllsta öryggis sé gætt, lekaliðum komið fyrir og allra sjónarmiða öryggisstaðla sé mætt innan þess kerfis sem þar er. Annaðhvort var að veita aðlögun eða stöðva þá uppbyggingu sem nú stendur yfir á svæðinu. Þróunarfélagið er þegar byrjað að lagfæra rafmagnskerfið á svæðinu svo hægt sé að nota það á fullnægjandi og öruggan hátt.



Að sjálfsögðu verður skipt um kerfið og evrópskt rafmagnskerfi tekið upp á svæðinu en hér eru mikil verðmæti undir og brýnt að öflug starfsemi hefjist á svæðinu. Lögin eru skilyrt við aðgerðaráætlun um útskiptin og tímabundin við þrjú ár.



Svona er pólitíkin. Stundum eru einungis erfiðir kostir sem blasa við en það þarf að leysa málin. Og þá er að velja þann kostinn sem talinn er bestur og þjóna almannahagsmunum til lengri tíma litið.

Höfundur er viðskiptaráðherra.




Skoðun

Sjá meira


×