Viðskipti erlent

Kerkorian selur meira í GM

Kirk Kerkorian.
Kirk Kerkorian. Mynd/AFP

Bandaríski auðkýfingurinn Kirk Kerkorian hefur selt helmingshlut sinn í bandaríska bílaframleiðandanum General Motors. Fjárfestingafélag Kerkorians, Tracinda Corp., átti lengi vel tæpan 10 prósenta hlut. Þetta er í annað sinn sem hann selur stóra hluti í GM og á nú um 4,9 prósent.

Kerkorian átti frumkvæðið að samstarfsviðræðum GM, Nissan Motors og franska bílaframleiðandans Renault í sumar. Hann var bjartsýnn á samstarf enda reiknað með að hagur bílaframleiðandans bandaríska myndi batna með samstarfinu. Þegar upp úr slitnaði á haustdögum lýsti hann yfir sárum vonbrigðum með niðurstöðuna og greindi frá því að hann myndi selja hluti sína í GM.

Kerkorian auk þess ákveðið að auka við hlut sinn í hótel- og spilavítakeðjunni MGM Mirage, sem á fasteignir í Las Vegas og Atlantic City.

Kerkorian seldi um 14 milljón hluti sína í GM í síðustu viku og tók gengi bréfa í bílaframleiðandanum talsverða dýfu við það. Hann seldi svo enn meira í vikunni og á nú 4,9 prósent í fyrirtækinu. Þetta jafngildir því að Kerkorian hafi selt um helming hlutabréfa sinna í GM.

Gengi bréfa í GM lækkaði um tæp prósent í gær vegna fréttanna.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×