Norræna lággjaldaflugfélagið FlyMe, sem Pálmi Haraldsson í Fons á stærstan hluta í, hefur keypt fimmtíu og eins prósents hlut í breska leiguflugfélaginu Astreus.
Kaupverð er tæpar átta hundruð milljónir íslenskra króna. Seljandi er Aberdeen Asset Management sem verður minnihlutaeigandi í Astreus.
Astreus var stofnað árið 2002 og er með höfuðstöðvar á Gatwick flugvelli í Lundúnum. Félagið flytur um átta hundruð þúsund farþega á ári hverju og veltir um 11,4 milljörðum króna. Astreus rekur tíu Boeing breiðþotur sem það leigir út, auk þess að fljúga til áfangastaða í Vestur-Afríku og Austur-Evrópu. Tæplega fjögur hundruð manns starfa hjá félaginu.
FlyMe á fyrir fimm Boeing breiðþotur. Finn Thaulow, forstjóri FlyMe, segir mikil samlegðaráhrif milli FlyMe og Astreus: "Með kaupunum náum við að nýta flugflota okkar mun betur en áður." FlyMe tapaði 1,1 milljarði króna á fyrri árshelmingi. Tap félagsins tvöfaldaðist milli ára.