Hagnaður bandarísku fatakeðjunnar Gap nam 128 milljónum bandaríkjadala, jafnvirði tæplega 8,9 milljarða íslenskra króna, á öðrum ársfjórðungi. Á sama tíma fyrir ári nam hagnaðurinn 272 milljónum dala eða 18,8 milljörðum króna og jafngildir þetta 53 prósenta samdrætti á milli ára.
Helsta ástæðan er minni sala, verðlækkanir á vörum fyrirtækisins, aukinn auglýsingakostnaður og harðari samkeppni.
Að sögn fyrirtækisins mun samdráttur einnig hafa verið hjá fyrirtækinu í þessum mánuði og er því spáð slakari afkomu fyrir árið í heild en áður var búist við.
Greiningaraðilar segja niðurstöðurnar slæmar fyrir Gap og hefur gengi bréfa fyrirtækisins lækkað ört.