Íslendingar í 4. styrkleikaflokki

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik er í 4. styrkleikaflokki en dregið verður í riðla Evrópukeppninnar í Luzern í Sviss á laugardag. Íslendingar tryggðu sér sæti í úrslitakeppninni um helgina með sigri á Hvít-Rússum með 12 marka mun samtals. Norðmenn, Úkraínumenn og Slóvakar eru í sama styrkleikaflokki og Íslendingar geta því ekki lent á móti þessum liðum. Í 1. styrkleikaflokki eru Þjóðverjar, Slóvenar, Danir og Króatar. Í öðrum flokki eru Rússar, Frakkar, Pólverjar og Serbar og í þriðja styrkleikaflokki Ungverjar, Spánverjar, Portúgalar og Svisslendingar. Svíar komust ekki í úrslitakeppnina en þeir töpuðu með eins marks mun samanlagt í tveimur leikjum gegn Pólverjum. Svíar hafa verið með á öllum heims- og Evrópumótum og unnið fern gullverðlaun á heimsmeistaramótum og fern gullverðlaun á Evrópumótum.