Sport

9 leikir í NBA í nótt

Það var mikið um dýrðir í NBA deildinni í nótt og nokkrar af aðal byssunum í deildinni voru í banastuði. Spennan í keppninni um sæti í úrslitakeppninni er að ná hámarki og línur eru teknar að skýrast nokkuð með niðurröðun liða. Eitt af spútnikliðum vetrarins, Chicago Bulls, náðu þeim glæsilega árangri að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni með 110-97 sigri á Toronto Raptors á heimavelli sínum. Sú staðreynd að liðið skuli vera komið þangað verður að teljast mjög merkileg, því liðið tapaði fyrstu  9 leikjum sínum í byrjun tímabilsins í haust og 14 af fyrstu 17. Liðið hefur átt afar döpru gengi að fagna síðan Michael Jordan lagði skóna á hilluna, en nú hefur Scott Skiles þjálfari snúið skútunni við og mikill fögnuður ríkir nú í herbúðum félagsins eftir að úrslitakeppnissætið var í höfn. "Þetta er frábær árangur hjá strákunum og það er vissulega ástæða til að gleðjast yfir þessu, sérstaklega í ljósi þess hve illa við byrjuðum í vetur," sagði Skiles eftir leikinn. Kirk Hinrich var stigahæstur í liði Bulls með 25 stig og 8 stoðsendingar og Tyson Chandler skoraði 18 stig og hirti 21 frákast. New Jersey Nets eru ekki á þeim buxunum að fara í sumarfrí og í nótt lögðu þeir Boston Celtics með 99 stigum gegn 86 á heimavelli sínum. Vince Carter fór hreinlega hamförum í leiknum og skoraði 45 stig. Hann var sérstaklega skæður í fyrsta leikhlutanum, þar sem hann skoraði fleiri stig einn síns liðs en allt Boston liðið, þar sem hann var með 24 stig og hitti úr 9 af 10 skotum sínum, þar af fimm þriggja stiga körfur. Jason Kidd átti einnig fínan leik hjá New Jersey, en hann skoraði 9 stig, átti 17 stoðsendingar og hirti 9 fráköst. Annar leikmaður sem fann fjölina sína í nótt var argentínski snillingurinn hjá San Antonio Spurs, Manu Ginobili, en hann sallaði 40 stigum á LA Clippers í naumum sigri Spurs eftir tvær framlengingar. Það var hinsvegar Gamla kempan Robert Horry sem stal senunni í leiknum, en hann skoraði sigurkörfu Spurs úr þriggja stiga skoti nokkrum sekúndum fyrir lok síðari framlengingarinnar og varði svo síðasta skot Clippers sem hefði geta tryggt þeim sigurinn í blálokin.  Helstu keppinautar San Antonio um efsta sætið í Vesturdeildinni, Phoenix Suns, virðast vera að missa taktinn þessa dagana, því í nótt töpuðu þeir á heimavelli fyrir Houston Rockets 98-97. Phoenix hafa nú tapað tveimur leikjum í röð og eru nú aðeins einum leik á undan Spurs í efsta sætinu. Tracy McGrady var stigahæstur í liði Houston með 34 stig, en hann og félagar hans í liðinu voru ekkert á því að fagna sigrinum eftir leikinn, því þeir voru ljónheppnir að tapa honum ekki eftir að tapa niður 16 stiga forskoti á síðustu 10 mínútum leiksins. Steve Nash fékk tækifæri til að vinna leikinn fyrir heimamenn, en hitti ekki og Steven Hunter félagi hans náði frákastinu og reyndi að troða boltanum, en sú tilraun misheppnaðist líka og því sluppu gestirnir frá Texas með skrekkinn. "Ég er nægilega auðmjúkur til að viðurkenna að við vorum einfaldlega heppnir að vinna í dag," sagði Jeff van Gundy, þjálfari Rockets. Heitasta liðið í deildinni, Denver Nuggets héldu áfram að valta yfir andstæðinga sína og skelltu liði Seattle í nótt 121-105 og eru á mikilli siglingu. Seattle hefur hinsvegar gefið mikið eftir á lokasprettinum og hafa vandræði með meiðsli og aga verið að plaga liðið mikið. Carmelo Anthony var stigahæstur í liði Denver með 24 stig og Earl Boykins skoraði 23, en maður leiksins var leikstjórnandinn Andre Miller, sem skoraði 14 stig og gaf 17 stoðsendingar. Þetta var 7 sigurleikur Denver í röð og sá 21. í síðustu 23 leikjum. Dallas Mavericks tryggðu sér heimavallarréttinn í fyrstu umferð úrslitakeppninnar þegar þeir lögðu lið Utah Jazz á heimavelli sínum, 88-81 þar sem Þjóðverjinn Dirk Nowitzki var stigahæstur með 24 stig og hirti auk þess 9 fráköst. Philadelphia og Cleveland halda áfram harðri baráttu um sjöunda sætið í Austurdeildinni, en liðin unnu bæði leiki sína í nótt. LeBron James var að venju allt í öllu í liði Cleveland, sem sigraði Milwaukee 98-81, en undrabarnið skoraði 40 stig, hirti 10 fráköst og gaf 10 stoðsendingar. Á sama tíma lögðu liðsmenn Philadelphia lið Washington Wizards 112-106 á útivelli í skrautlegum leik, þar sem miklar sveiflur voru í stigaskorun. Eftir að hafa leitt með 21 stigi og lent aftur 13 stigum undir, náðu Philadelphia 76ers að snúa leiknum sér í hag og vinna. Þeir Andre Iguodalia, Willie Green og Marc Jackson skoruðu allir 20 stig í jöfnu liði 76ers sem lék án síns aðalskorara Allen Iverson, sem sat á bekknum vegna meiðsla. Gilbert Arenas skoraði mest Wizards eða 44 stig. Þetta var fimmta tap Washington í röð og liðið virðist vera komið í lægð á versta tíma. Minnesota eru nánast búnir að tryggja sig í sumarfríið snemma, því í nótt náðu þeir þeim vafasama árangri að tapa 105-98 fyrir Atlanta Hawks, sem höfðu tapað 14 leikjum í röð fyrir leikinn í nótt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×