Viðskipti innlent

Varasjóðir VR

"Með þessu erum við í raun og veru að setja allar hliðarþjónustu félagsins í einn sjóð. Sjötíu prósent iðgjalda rennur áfram til samtryggingar félagsins og fer í sjúkra- og slysadagpeninga, dagpeninga fyrir langveik börn, dánarbætur, lögfræðiaðstoð og svo framvegis," segir Gunnar Páll Pálsson, formaður Verzlunarmannafélags Reykjavíkur. Á aðalfundi félagsins í næstu viku mun stjórn félagsins leggja til að hver félagsmaður eignist séreignasjóð hjá félaginu, svokallaðan varasjóð. "Þetta er útvíkkun á styrkjafyrirkomulagi okkar. Hver og einn félagsmaður ræður í hvað peningarnir úr sjóðnum fara, til dæmis orlof, símenntun, ný gleraugu eða heilsubrest. Við munum hækka verð í orlofshús okkar og fólk getur þá valið hvort það leitar til okkar eða einhverrar ferðaþjónustu. Við setjum aukna fjármuni í þessa varasjóði og fyrir þá sem lítið hafa notað sér styrkjafyrirkomulagið til þessa er þetta mikil breyting þeim í hag," segir Gunnar. Ef varasjóðafyrirkomulagið verður samþykkt fer það í gang næstu áramót. Hver félagsmaður fær þá að meðaltali 45 þúsund í sinn varasjóð til að byrja með og síðan vissa upphæð árlega eftir launum viðkomandi en gert er ráð fyrir að 350 til 400 milljónir renni í varasjóði félagsmanna árlega.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×