Körfubolti

Valur og KR styrkja sig rétt fyrir lok gluggans

Sindri Sverrisson skrifar
Igor Maric hefur spilað með Keflavík síðustu ár en er nú mættur í raðir Vals.
Igor Maric hefur spilað með Keflavík síðustu ár en er nú mættur í raðir Vals. Vísir/Hulda Margrét

Félögin í Bónus-deildunum í körfubolta hafa nú aðeins rúma tvo sólarhringa til þess að bæta við mannskap áður en félagaskiptaglugganum verður lokað og læst. Valur og KR hafa nú skráð inn nýja leikmenn.

Valsmenn hafa verið með þrjá erlenda leikmenn en hafa nú ákveðið að bæta hinum króatíska Igor Maric við sinn hóp. 

Maric, sem varð fertugur síðasta sumar, hefur leikið þrjú síðustu tímabil með Keflavík og skilað þar góðu framlagi en hann var að meðaltali með 12,3 stig á síðustu leiktíð, tók 4,9 fráköst og gaf 1,3 stoðsendingu. Hann lék fyrst hér á landi tímabilið 2021-22 en þá með ÍR.

Fyrsti leikur Maric með Val gæti orðið gegn Grindavík í kvöld þegar sextánda umferð Bónus-deildarinnar hefst með fjórum leikjum.

KR-ingar gætu einnig teflt fram nýjum leikmanni í kvöld þegar þeir mæta ÍA á Akranesi. Þeir hafa fengið þriðja lettneska leikmanninn í sínar raðir með því að semja við hinn 205 sentímetra háa miðherja Rinalds Malmanis. Hann lék síðast með Valmiera Glass í heimalandinu. Fyrir eru í KR landar hans Linards Jaunzems og Toms Leimanis.

Félagaskiptaglugginn lokast eins og fyrr segir nú um mánaðamótin, á miðnætti á laugardagskvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×