Skoðun

Nýi Land­spítalinn: klúður sem enginn þorir lengur að ræða

Sigurður Sigurðsson skrifar

Nýi Landspítalinn var kynntur sem eitt mikilvægasta innviðaverkefni Íslandssögunnar. Hann átti að tryggja framtíð heilbrigðisþjónustu, bæta öryggi sjúklinga og skapa nútímalegt háskólasjúkrahús. Í dag er staðan allt önnur. Verkefnið er langt komið fram úr tíma- og kostnaðaráætlunum, byggt á þröngri lóð án raunhæfra stækkunarmöguleika og uppfyllir ekki einu sinni grundvallarkröfur um neyðarinnviði. Samt er lítið rætt um þetta lengur.

Ákvarðanir teknar án fullnægjandi undirbúnings

Ákvörðun um staðsetningu Nýs Landspítala við Hringbraut var tekin á árunum 2013–2015. Þá lá ekki fyrir fullnaðarhönnun, bindandi framkvæmdaáætlun eða raunhæfur samanburður við aðra kosti. Þrátt fyrir það var ákveðið að halda áfram. Framkvæmdir hófust 2018 með áætluð verklok árið 2024 og kostnað í kringum 60 milljarða króna.

Tími og kostnaður sprunginn úr böndunum

Sú mynd hefur gjörbreyst. Nú er miðað við verklok á bilinu 2028–2030 og heildarkostnað sem fer líklega í 200 til 300 milljarða króna. Þetta er ekki smávægilegt frávik heldur margföldun sem gætu orðið stærstu opinberu mistök í íslenskri stjórnsýslusögu. Engu að síður hefur enginn borið ábyrgð og enginn vill lengur ræða þessa hörmung.

Spítali án grunnforsendna

Alvarlegast er þó ekki kostnaðurinn einn og sér, heldur niðurstaðan. Spítali sem á að vera háskólasjúkrahús og lykilinnviður í þjóðaröryggi verður líklega byggður án fullnægjandi þyrlupalls. Hann stendur á lóð þar sem lítið sem ekkert rými er til framtíðarstækkunar, þrátt fyrir að vitað sé að heilbrigðiskerfi þarf sveigjanleika og vöxt. Þetta eru ekki tæknileg smáatriði heldur grunnforsendur sem hefðu átt að liggja fyrir áður en fyrsta skóflustungan var tekin.

Gagnrýni var til staðar – en hunsuð

Þessi staða kom ekki á óvart. Fagfólk benti á þessa veikleika löngu áður en framkvæmdir hófust. Samt var gagnrýni sett til hliðar og verkefnið látið halda áfram. Þegar vandamálin urðu augljós voru þau útskýrð með ytri aðstæðum, verðbólgu eða heimsfaraldri. Slíkar skýringar standast illa þegar horft er á heildarmyndina. Vandinn liggur fyrst og fremst í röngum ákvörðunum sem voru teknar og skorti á raunverulegri þekkingu á sjúkrahússbyggingum og aðhaldi.

Þögnin orðin kerfisbundin

Í dag er umræðan um Nýjan Landspítala orðin óþægilega þögul. Ástæðan er einföld: verkefnið er orðið of stórt til að stöðva og of dýrt til að endurmeta. Ábyrgðin hefur dreifst yfir svo langan tíma að enginn einstaklingur eða stjórnmálamaður stendur eftir sem augljós ábyrgðaraðili. Kerfið ver sjálft sig með þögn.

Hættuleg normalísering mistaka - sem kostar samfélagið aukalega hundruð milljarða

Sú þögn er hættuleg. Með henni er verið að venja samfélagið við þá hugmynd að mistök og þekkingarleysi með aukakostnaði upp á hundruð milljarða króna séu einfaldlega „hluti af ferlinu“. Að stórar opinberar framkvæmdir megi fara fram án uppgjörs, án lærdóms og án ábyrgðar. Slíkt grefur undan trausti á stjórnsýslu og eykur líkurnar á að næsta stórverkefni fari sömu leið. Þegar hundruð milljarða af opinberu fé hverfur óvart - skiptir það ríkissjóð engu máli?

Prófraun fyrir lýðræðið

Nýi Landspítalinn er ekki bara bygging. Hann er prófsteinn á það hvort íslenskt samfélag geti horfst í augu við eigin mistök. Ef ekkert raunverulegt uppgjör fer fram er vandinn ekki bundinn við einn spítala. Þá er hann orðinn hluti af kerfinu sjálfu.

Höfundur er byggingaverkfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×