Körfubolti

NBA-leik frestað vegna ó­eirða í Minneapolis

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Curry og félagar í Golden State Warriors áttu að spila í miðborg Minneapolis í kvöld en ekkert verður af því.
Stephen Curry og félagar í Golden State Warriors áttu að spila í miðborg Minneapolis í kvöld en ekkert verður af því. Getty/Sam Hodde

NBA-deildin í körfubolta hefur frestað leik Minnesota Timberwolves og Golden State Warriors sem fara átti fram í kvöld í Minneapolis vegna vaxandi óeirða eftir að maður var skotinn til bana í átökum við alríkisyfirvöld á laugardagsmorgun.

Í yfirlýsingu frá NBA-deildinni kom fram að leiknum hefði verið frestað „til að forgangsraða öryggi samfélagsins í Minneapolis“.

Deildin stefnir á að leikurinn verði spilaður á sunnudag klukkan 17:30 að staðartíma. Einnig er áætlað að Warriors og Timberwolves mætist aftur í miðborg Minneapolis á mánudagskvöld.

Lögreglustjórinn í Minneapolis, Brian O'Hara, sagði að 37 ára gamall maður frá Minneapolis hefði verið drepinn í skotárásinni á laugardag en neitaði að nafngreina hann. Hann bætti við að upplýsingar um aðdraganda skotárásarinnar væru takmarkaðar.

Maðurinn sem var skotinn var gjörgæsluhjúkrunarfræðingurinn Alex Pretti, að sögn foreldra hans. Lögreglumaðurinn sem skaut manninn er landamæravörður með átta ára starfsreynslu, samkvæmt upplýsingum frá alríkisyfirvöldum.

Þetta er þriðja skotárásin og annað dauðsfallið í Minneapolis í þessum mánuði þar sem alríkisfulltrúi kemur við sögu, sem hefur leitt til stöðugra mótmæla víðs vegar um borgina þrátt fyrir frosthörkur.

Þúsundir gengu fylktu liði um miðborg Minneapolis síðdegis á föstudag og kröfðust þess að yfirstandandi aðgerðum bandarísku útlendinga- og tollgæslunnar í ríkinu yrði hætt. Mótmælin fóru fram hjá Target Center og hóteli Warriors í miðborginni.

Skotárásin á laugardagsmorgun átti sér stað um þremur kílómetrum sunnan við leikvanginn og leiddi til frekari mótmæla hjá íbúum.

Árið 2020 var leikjum í úrslitakeppni NBA-deildarinnar, sem fram fóru í „kúlunni“ í Walt Disney World í Flórída, frestað eftir að leikmenn ákváðu að sniðganga þá í kjölfar skotárásarinnar á Jacob Blake í Wisconsin. Leikir hófust aftur þremur dögum síðar.

Áætlað var að leikurinn á laugardag yrði sýndur á ABC; leikurinn sem frestað var til sunnudags verður sýndur á NBA TV.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×