Skoðun

Byggjum fyrir fólk

Hafdís Hanna Ægisdóttir, Hjördís Sveinsdóttir og Silja Elvarsdóttir skrifa

Hvernig líður þér í rýminu sem þú ert í núna? Heima? Í vinnunni? Í skólanum? Byggingar eru meira en bara þak yfir höfuðið. Hönnun þeirra hefur áhrif á líðan okkar, hugsun og samskipti við annað fólk.

Undanfarið hefur fagurfræði nýbygginga í borgarlandslaginu verið til umræðu hér á landi. Umræðan hefur snúist um að gæði og útlit haldi ekki í við væntingar fólks. Um leið hafa umhverfisáhrif byggingargeirans fengið aukna athygli, enda er umhverfis- og loftslagsváin ein stærsta áskorun þessarar aldar og áhrif byggingargeirans þar umtalsverð. Þetta eru þó ekki aðskilin mál, heldur samtvinnuð. Mikilvægasta áskorun nútíma byggingagerðar er einmitt að sameina þessi sjónarhorn, þ.e. að hanna og byggja hús sem stuðla að bættri heilsu og vellíðan notenda, og á sama tíma mæta þeim umhverfislegu áskorunum sem við sem samfélag stöndum frammi fyrir.

Þar kemur New European Bauhaus (NEB) hreyfingin sterkt inn. Hún byggir á hugmyndafræði sem tengir saman vísindi og tækni við listir, menningu og samfélagsvitund. NEB kallar eftir fallegum, sjálfbærum og inngildandi lausnum þar sem þátttaka og þverfagleg samvinna eru lykilatriði. Spurningin er: Hvernig getum við aðlagað þessi gildi að íslenskum aðstæðum?

Þrjú gildi – ein sýn

NEB snýst um eftirfarandi þrjú grunngildi: Sjálfbærni: Þar sem dregið er úr losun gróðurhúsalofttegunda, notað endurvinnanlegt efni í anda hringrásarhagkerfisins, auk grænnar fjármögnunar.

Inngilding: Þar sem fólk hefur jafnan aðgang að góðu húsnæði og raddir ólíkra hópa fá að heyrast í hönnunarferlinu, einnig þeirra sem oft standa utan við.

Fegurð: Ekki bara fagurfræði bygginga heldur einnig fegurð sem býr til tilfinningu fyrir tengingu, arfleifð og vellíðan.

Sjálfbærni og inngildingu er nokkuð auðvelt að stilla upp á gátlista og setja upp mælanleg markmið. En hvernig mælum við fegurð? Fegurð í þessu samhengi vísar ekki einungis til fagurfræði, heldur er hugtakið mjög víðfeðmt. Fegurð í NEB felur meðal annars í sér varðveislu menningararfs og að viðhalda tilfinningu fyrir því að tilheyra. Jafnframt felur hún í sér að tryggja gæði í byggðu umhverfi og stuðla þannig að vellíðan, samhliða hefðbundinni fagurfræði. Þetta eru atriði sem erfitt er að mæla en hafa mikil áhrif á líðan fólks í byggðu umhverfi.

Þá vaknar spurningin: Hvernig getum við aðlagað þessi gildi að íslenskum aðstæðum?

Sköpum framtíðina saman Fimmtudaginn 22. janúar kl. 15:00–16:30 verður haldinn viðburðurinn „Byggjum fyrir fólk“. Þar koma saman sérfræðingar og hugsuðir úr byggingargeiranum og ræða hvernig

við getum sameinað félagslega, menningarlega og umhverfislega þætti til að skapa heilnæma byggð fyrir okkur öll. Hægt verður að fylgjast með viðburðinum í streymi.

Hvernig og hvað við byggjum segir mikið um hver við viljum vera sem samfélag. Taktu þátt í samtalinu og mótaðu byggða framtíð sem við öll getum verið stolt af.

Hafdís Hanna er forstöðumaður Sjálfbærnistofnunar HÍ, Hjördís er verkefnastjóri hjá Grænni byggð og Silja er verkefnastjóri hjá Norræna húsinu.




Skoðun

Skoðun

Byggjum fyrir fólk

Hafdís Hanna Ægisdóttir,Hjördís Sveinsdóttir,Silja Elvarsdóttir skrifar

Sjá meira


×