Skoðun

Breytt heims­mynd kallar á endur­mat á öryggi raf­orku­inn­viða

Halldór Halldórsson skrifar

Raforkukerfi Íslands stendur á tímamótum. Þróunin í alþjóðamálum, aukin óvissa og flóknara tæknilegt umhverfi hafa breytt forsendum og skapað nýjar fjölþættar ógnir. Í ljósi þess er brýnt að endurmeta og efla öryggi raforkuinnviða landsins. Samkvæmt gögnum Landsnets og greiningum sérfræðinga er ljóst að ógnir sem áður voru metnar sem ólíklegar eru nú raunhæfur þáttur í rekstri raforkukerfisins. Þar má nefna vaxandi netógnir, hættu á skemmdaverkum, upplýsingaóreiðu, óstöðugleika í aðfangakeðjunni og flóknari samfélagsinnviði, sem þurfa samhæfð og fumlaus viðbrögð.

Fjölþátta ógnir krefjast nýrrar nálgunar

Gögn sem lögð hafa verið fyrir stjórnvöld sýna að mörg Evrópulönd hafa nú þegar innleitt strangari kröfur um rekstrar- og netöryggi raforkukerfa. Á Íslandi er staðan mun brothættari þar sem laga- og regluverk hér heima styður ekki nægilega vel við þær öryggiskröfur sem gerðar eru til mikilvægra innviða. Þar kemur jafnframt fram að skortur á skýru boðvaldi og ábyrgð í neyðarástandi sé endurtekið vandamál sem komið hafi skýrt fram í neyðaræfingum innan raforkukerfisins.

Vaxandi netógnir, stöðumat fyrirtækja ólíkt og eftirlit veikburða

Í kjölfar greininga stjórnvalda frá 2025 kemur fram að of stór hluti orku- og veitufyrirtækja uppfyllir ekki lágmarkskröfur um netöryggisvarnir. Sérfræðingar í netöryggisráði Samorku benda á að eftirlit stjórnvalda sé takmarkað og að ábyrgð og verkaskipting óljós. CERT-IS á þó lof skilið fyrir fagmennsku. Samhliða koma fram ýmsar vísbendingar um að tækifæri séu fyrir stjórnvöld að bæta sýn á stöðu mála og að skortir á reglubundnar greiningar og heildaryfirsýn í tilfelli raforkuinnviða, sem eru grunnstoð samfélagsins. Þetta eru sannarlega varnaðarorð sem verður að taka alvarlega.

Afhendingaröryggi og rekstraröryggi

Mikilvægar innviðatengingar eins og flutningskerfi raforku eru lykilþættir í samfélagsins til að tryggja öryggi og stöðugleika enda getur straumleysi haft alvarleg áhrif á öryggi fólks og heimila, atvinnulíf, fjarskiptakerfi og viðbragðsgetu samfélagsins. Í kerfisáætlun Landsnets 2025–2034 er lögð rík áhersla á að öryggi flutningskerfisins sé grundvöllur efnahagslegrar velgengni og að raforkuafhending verði sífellt mikilvægari í stafrænum og orkufrekum heimi. Þar er einnig rætt um náttúruvá og að auknar sveiflur í eftirspurn séu orðnar mun stærri þáttur en áður.

Neyðarfjarskipti og samhæfing eru burðarásar í öryggismálum

Í gögnum um öryggis- og neyðarfjarskipti kemur skýrt fram að traust fjarskiptakerfi sé forsenda fumlausra viðbragða við ófyrirséðum atburðum, hvort sem um er að ræða bilun, fjölþáttaógnir, náttúruvá eða almannavarnaástand. Þar er lögð áhersla á að allir lykilaðilar noti samhæfð kerfi og að yfirsýn, samtengimöguleikar og að sameiginlegt stjórnunarferli séu til staðar. Þetta undirstrikar mikilvægi þess að tryggja bæði tæknilegan búnað og verklag sem stenst álag og alvarlegar truflanir í rekstri raforkukerfisins. Huga þarf sem fyrst að neyðarfjarskiptakerfi sem tekur við af TETRA kerfinu og leysir það af hólmi þar sem stuðningur framleiðanda við TETRA kerfið er að fjara út.

Innkaupa- og aðfangakeðjur

Í umræðum um öryggismál er líka bent á hækkandi kostnað, lengri afhendingartíma og aukna færslu viðskipta til Asíu og Kína, sem eykur áhættu í innviðauppbyggingu. Þetta hefur bein áhrif á getu fyrirtækja til að ráðast hratt í viðgerðir, viðhald og uppbyggingu og gerir nauðsyn þess að styrkja öryggiskröfur enn brýnni.

Hvað þarf að gera?

Samantekt gagna bendir til nokkurra lykilatriða sem samfélagið, stjórnvöld og orkufyrirtæki þurfa að bregðast við:

1. Uppfæra laga- og regluverk

Eðlilegt er að Ísland samræmi kröfur sínar við það sem gengur og gerist í öðrum Evrópulöndum, sérstaklega varðandi öryggisvarnir og vöktun, netöryggi og rekstraröryggi innviða.

2. Skýra verkaskiptingu og boðvald í neyðarástandi

Neyðaræfingar hafa sýnt að óljós ábyrgð og ómarkviss stjórnun getur tafið viðbrögð og aukið áhættu.

3. Efla aðbúnað og samhæfingu öryggisvarna

Stjórnvöld þurfa að koma á reglulegu eftirliti, mati ásamt skýrri forgangsröðun og heildarsýn í vöktun og öryggisvörnum, þar með talið netöryggi mikilvægara innviða.

4. Byggja upp seiglu í aðfangakeðju og innviðauppbyggingu

Langir afhendingartímar, flutningshömlur og verðhækkandi markaður geta haft bein áhrif á öryggi raforkukerfisins. Setja þarf innkaupastefnu m.t.t stöðu heimsmála.

5. Styrkja neyðarfjarskipti og sameiginlega stjórnun

Fjárfesta þarf í nýrri tækni til að styrkja neyðarfjarskipti. Sameiginlegt, áreiðanlegt og samhæft neyðarfjarskiptakerfi verður hornsteinn í öryggi raforkukerfisins næstu árin.

Þurfum að horfa til framtíðar

Í breyttri heimsmynd, þar sem alþjóðleg spenna, tæknileg þróun og aukin óreiða í upplýsingakerfum skapa ófyrirséðar áskoranir, þarf Ísland að horfa til framtíðar með öflugu og samhæfðu öryggissjónarhorni. Raforkuinnviðirnir eru ein af mikilvægustu lífæðum samfélagsins og því þarf að tryggja að þeir standist álagspróf 21. aldarinnar.

Höfundur er öryggisstjóri Landsnets og formaður neyðarsamstarfs raforkukerfisins.




Skoðun

Skoðun

Ung til at­hafna

Hildur Rós Guðbjargardóttir,Eyrún Fríða Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×