Innlent

„Þarna var á­kveðið að verja ekki börnin“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Talskona Stígamóta segir það afar varhugaverða þróun ef réttarkerfið ætlar að taka mið af óskum þolenda um að biðjast vægðar fyrir hönd gerenda þegar dómar eru kveðnir upp fyrir ofbeldisbrot. Það myndi útsetja þolendur nú og í framtíðinni fyrir hótunum og mögulega frekara ofbeldi gerenda.
Talskona Stígamóta segir það afar varhugaverða þróun ef réttarkerfið ætlar að taka mið af óskum þolenda um að biðjast vægðar fyrir hönd gerenda þegar dómar eru kveðnir upp fyrir ofbeldisbrot. Það myndi útsetja þolendur nú og í framtíðinni fyrir hótunum og mögulega frekara ofbeldi gerenda. Samsett

Það er mat talskonu Stígamóta að dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur hafi með dómi sínum ákveðið að leggja hagsmuni barnanna til hliðar þegar hann ákvað að skilorðsbinda fimm ára fangelsisdóm sem kveðinn var upp yfir manni á fertugsaldri vegna alvarlegra og ítrekaðra ofbeldisbrota hans gegn sambýliskonu.

Að minnsta kosti einu sinni fór umrætt ofbeldi fram fyrir framan barn. Þessi sami maður er nú ákærður fyrir að hafa beitt dóttur sambýliskonu sinnar ítrekuðu kynferðislegu ofbeldi sem hann á að hafa framið frá 2023 til 2025 þegar stúlkan var sex til níu ára á heimili þeirra í Hafnarfirði.

Fáheyrt er að svo þungur dómur (í árum talið) fyrir alvarleg ofbeldisbrot sé skilorðsbundinn en í dómnum var sagt að ásetningur ákærða til brotanna hafi verið sterkur og einbeittur.

Ein af ástæðunum sem taldar eru upp í dómnum fyrir því að ákveðið var að skilorðsbinda dóm mannsins var sú að umrædd sambýliskona hafi beðist vægðar fyrir hann og sagt að það myndi raska núverandi högum hennar og barna hennar ef manninum yrði gerð óskilorðsbundin refsing. Þá hafi maðurinn játað brot sín skýlaust og væri fullur eftirsjár.

„Þarna er maður sem hefur sýnt af sér grófa ofbeldishegðun, að hluta til fyrir framan börn. Þarna hefur verið ákveðið að setja hagsmuni barnanna til hliðar. Það hefur verið ákveðið að verja ekki börnin af því að – eins og ég les þetta – þá hafa ofbeldisbrot verið framin fyrir framan börn. Það er samkvæmt skilgreiningu ofbeldi gegn börnum en samt er ákveðið að liðka fyrir því að maðurinn fari inn á heimilið aftur.“

Myndi útsetja þolendur fyrir enn frekara ofbeldi og hótunum

Þetta segir Drífa Snædal talskona Stígamóta sem var innt eftir viðbrögðum við málinu.

„Það sem er svakalegt í þessu máli, eftir því sem maður les í fjölmiðlum, er að þarna hefur brotaþoli óskað eftir því að gerandi afpláni ekki. Ef það er réttarfarið hjá okkur að brotaþolar geti óskað eftir því að þeir sem brjóta á þeim þurfi ekki að afplána þá erum við að útsetja brotaþola þessa lands fyrir hótunum, frekara ofbeldi, mútum og fleiru.“

Starfsfólk Stígamóta þekkir það of vel að ein af afleiðingum ofbeldisbrota á þolendur er að taka á sig sök og jafnvel gera lítið úr ofbeldinu.

Framdi brot gegn móður barnsins fyrir framan barnið

Í dómnum sem hann hlaut fyrir ofbeldi gegn sambýliskonunni kemur fram að ofbeldið hefði verið framið í nærveru barns sem var yngra en 15, að minnsta kosti í eitt skiptið.

„Það að hann hafi ekki afplánað og bara verið sendur beint inn á heimilið aftur sýnir bara mjög mikla vanþekkingu í kerfinu; vanþekkingu á því að brotaþolar geta verið fjárhagslega og tilfinningalega háðir þeim sem brjóta gegn þeim. Það getur verið hluti af þessu. Það er bara mjög margt í þessu máli sem hringir öllum bjöllum. Maður hefði haldið að kerfið væri komið lengra í vitneskju um afleiðingar ofbeldisbrota og stöðu brotaþola í samfélaginu en framkvæmd dómsins gefur til kynna.“

Ofbeldi karla gegn konum aldrei einkamál

Drífa segir að veruleiki ofbeldissambanda sé oft sá að þolandi er háður geranda fjárhagslega.

„Við búum náttúrulega við þannig samfélag að það þarf yfirleitt tvær innkomur til að sjá fyrir fjölskyldu og það þarf að huga sérstaklega að fjárhagslegum stuðningi við konur sem eru að reyna að brjótast út úr ofbeldissamböndum. Heilt yfir má segja að við séum búin að lyfta ofbeldi innan veggja heimilisins yfir í það að vera samfélagslegt vandamál og við eigum að tækla þau þannig. Ofbeldi karla gegn konum er ekki einkamál.“


Tengdar fréttir

Játar að hafa brotið á stúlku í Hafnarfirði

Karmaður sem hefur verið ákærður fyrir að nauðga stúlku, sem er yngri en fjórtán ára, í Hafnarfirði í október síðastliðnum hefur játað brot sín að mestu leyti. Maðurinn tengist stúlkunni fjölskylduböndum. Hann sætir nú gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna.

Slapp óvænt við fangelsi og braut ítrekað á stjúpdóttur sinni

Karlmaður hefur verið ákærður fyrir ítrekuð kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni þegar hún var sex til níu ára gömul. Sami maður hlaut fyrir tveimur árum þungan dóm fyrir kynferðisbrot gegn móður stúlkunar en sat aldrei inni, að sérstakri ósk móðurinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×