Erlent

Trump segir stjórn­völd í Íran hætt að drepa mót­mælendur

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Tíminn mun leiða í ljós hvort eitthvað sé að marka loforð stjórnvalda í Íran um að hætta að beita mótmælendur ofbeldi.
Tíminn mun leiða í ljós hvort eitthvað sé að marka loforð stjórnvalda í Íran um að hætta að beita mótmælendur ofbeldi. Getty/Alishia Abodunde

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist hafa verið fullvissaður um að stjórnvöld í Íran séu ekki lengur að drepa mótmælendur í landinu en að hann muni fylgjast með stöðu mála og sjá til með mögulegar hernaðaraðgerðir.

Forsetinn hafði áður ítrekað hótað því að grípa til aðgerða vegna framgöngu stjórnvalda gegn mótmælendum, hvatt mótmælendur til dáða og jafnvel heitið aðstoð frá Bandaríkjunum.

Iran Human Rights, mannréttindasamtök í Noregi, segja að minnsta kosti 3.428 hafa látist í mótmælunum. Þau hafa staðið yfir frá því fyrir áramót og út um allt land.

Trump sagði einnig að stjórnvöld í Íran hefðu sagt að engar aftökur væru yfirvofandi en áður hafði verið greint frá því að mótmælandi sem var handtekinn í síðustu viku og hefur þegar verið dreginn fyrir dóm og fundinn sekur yrði hengdur í vikunni.

Abbas Araghchi, utanríkisráðherra Íran, staðfesti á Fox News í gær að það stæði ekki til að hengja mótmælendur og þá hafa borist fregnir af því að fjölskyldu áðurnefnds mótmælanda hafi verið tjáð að aftöku hans hafi verið frestað.

Íranir virðast þannig vera að bregðast við hótunum Trump og verið uggandi vegna mögulegrar hernaðaríhlutunar, þrátt fyrir að margir sérfræðingar væru á því að kostir Trump í stöðunni væru takmarkaðir. Stjórnvöld í Íran höfðu fyrir sitt leyti hótað því að gera árásir á herstöðvar Bandaríkjamanna á svæðinu ef Bandaríkin gerðu árásir á Íran.

Lofthelginni yfir Íran var lokað um stutta stund í morgun en hefur verið opnuð á ný. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×