Skoðun

Ég vil Vor til vinstri!

Rakel Hildardóttir skrifar

Senn líður að kosningum og frambjóðendur keppast við að koma sínu sjónarhorni að, tala til sinna kjósenda sem best þau geta. Það ætti engan að undra hversu oft Reykvíkingur, Akureyringur, Ísfirðingur, Selfyssingur eða hvaða annað sveitarfélags-ingur sem við kunnum að vera, birtast okkur á miðlunum næstu vikur og mánuði.

Kosningaréttur er réttur til áhrifa

Frambjóðendur fara ólíkar, en þó þekktar leiðir til að ná til kjósenda sinna. Sumir rifja upp bernskuslóðir sínar, aðrir tala um húsnæðisvandann, fjölskyldulífið, barnauppeldið, strætó og borgarlínu. Það er líka talað um bókasöfnin, sundlaugarnar, leik- og grunnskólum og gleymum ekki sorphirðunni! Það er enda sannarlega ástæða til - þetta eru staðir og kerfi sem við getum ekki verið án sem samfélag.

Það skiptir öllu máli hvernig samfélagi við búum okkur og þess vegna er mikilvægt að við látum okkur kosningar til sveitarstjórna varða — tökum þátt í þeim! Kosningar eru tími fólksins. Öll þau sem hafa kosningarétt þurfa að muna að það að hafa atkvæði er að hafa áhrif!

Notum kjörseðilinn til að láta sveitarstjórn vinna að þeim hagsmunum sem eru okkur mikilvægastir. Við erum mörg og við erum margvísleg, við rekum allskonar fjölskyldur og allskonar heimili. Við vinnum dagvinnu, kvöldvinnu og vaktavinnu, sum okkar á lífeyri, en við eigum það sameiginlegt að við erum að reyna að láta þetta ganga upp, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár. Oft gengur dæmið samt ekki upp, lífskjör margra eru ekki jöfn á við aðra og það er ósanngjarnt. Við erum mörg sem erum ósátt við þann kostnað sem við erum látin bera. Við sem rekum heimili með lánum á vondum vaxtakjörum, við sem rekum heimili við óbærilegt og síhækkandi leiguverð -við þurfum að standa saman og láta í okkur heyra.

Höfum áhrif á húsnæðismálin

Það er ekki eðlilegt ástand að húsnæði sé forréttindi. Það er líka þannig að kjósendur eru ekki öll vinnandi fólk með heimili. Undanfarin ár hefur þeim fjölgað sem ekki eiga heimili eða eru með vinnu. Hvernig má þetta vera? Línan milli þess að vera í húsnæði

og vinnu verður sífellt þynnri eftir því sem kostnaður eykst við það að standast lágmarkskröfur samfélagssáttmálans -ef lágmarkskrafan er að vera vinnuaflið sem keyrir hér áfram hagvöxtinn. Óöruggt húsnæðisástand beinlínis rýrir lífskjör fólks. Það er líka þannig að fleiri eiga það á hættu að lenda í heimilisleysi í dag en áður. Þegar keyrt er um borgina og nágrannasveitarfélög hennar má sjá að mikið af iðnaðarhúsnæði er nýtt undir búsetu fólks. Látum ekki bjóða okkur þetta ástand.

Stærsta áskorun næstu borgarstjórnar og annara sveitarfélagana hlýtur að vera húsnæðismál. Með því að vinna að uppbyggingu félagslegs húsnæðis og óhagnaðardrifinna leigufélaga getum við búið til samfélag sem tryggir lágmarksmannréttindi eins og öruggt húsaskjól. Það er ekki íbúum að kenna að ekki er til húsnæði við hæfi. Það eru sveitarfélögin og yfirvöld sem bera ábyrgð á því að það sé til nægt húsnæði á hverjum tíma, á hverjum stað.

Öruggt húsnæði er forsenda friðsældar í samfélaginu

Okkur fjölgar og þannig fjölgar líka þeim sem eiga rétt á húsnæði og þjónustu í hverju sveitarfélagi. Hvernig sem fjölgunin er tilkomin þá er það á ábyrgð okkar, íbúanna að láta hvorki kjörna fulltrúa okkar eða peningaöflin komast upp með að etja okkur saman um hvert okkar sé rót vandans. Það er á valdi stjórnmálanna að hér sé byggt upp öruggt og gott húsnæði, hvort sem það er félagslegt eða séreign. Húsnæði er einfaldlega mannréttindi og forsenda þess að við getum búið í friðsömu og farsælu samfélagi. Við eigum að krefjast þess að grundvallarmannréttindi eins og öruggt húsaskjól séu virt.

Með ábyrgri stjórnun og markvissum aðgerðum, með því að styrkja tekjustofna sveitarfélaga með sanngjarnri skattheimtu, er hægt að leysa húsnæðisvandann. Hvernig er það sanngjarnt að almenningur hafi ekki öruggt húsaskjól en greiði 38-40% skatt til samneyslunnar á meðan fjármagnseigendur greiða mun minna. Fjármagnseigendur sem braska með lóðir og fasteignir til að hámarka arð sinn.

Þess vegna þurfum við að kjósa með hagsmunum fólksins og kjósa félagshyggju. Við þurfum að standa saman í því að hér sé hægt að lifa mannsæmandi lífi, það sé einfaldlega þannig að fólki hafi efni á að lifa og búa í borginni. Þegar fólk býr ekki við þá daglegu streitu sem fylgir afkomukvíða þá verður lífið auðveldara. Glæpum fækkar

hreinlega og fólki líður bara betur. Ég hvet ykkur, félagshyggjufólk í borginni og víðar til að kjósa og taka þátt í kosningunum í vor með því að velja það til vinstri. Félagshyggjan setur fólk í fyrsta sætið og til að við félagshyggjufólk í Reykjavík getum kosið raunverulegt félagshyggjuafl þurfum við að geta kosið um Vor til vinstri.

Styðjum Vor til vinstri á vortilvinstri.is og með kjörseðlinum þann 16. maí.

Ég vil vor til vinstri!

Höfundur er kjósandi.




Skoðun

Sjá meira


×