Innlent

Fékk afa sinn með sér á skóla­bekk

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Guðni Ágústsson tók áskorun Snorra Guðnasonar dóttursonar síns og ætlar í íslenskuáfanga með honum. Þeir segja um samvinnuverkefni að ræða og stefna á hæstu einkunn.
Guðni Ágústsson tók áskorun Snorra Guðnasonar dóttursonar síns og ætlar í íslenskuáfanga með honum. Þeir segja um samvinnuverkefni að ræða og stefna á hæstu einkunn. Vísir/Bjarni

Guðni Ágústsson fyrrverandi alþingismaður var ekki lengi að hugsa sig um þegar barnabarn hans bað hann um að koma með sér í íslenskuáfanga í framhaldsskóla og skellti sér með honum í námið. Þeir félagar ætla að skiptast á þekkingu og búast við háum einkunnum.

Framhaldsskóli Austur-Skaftafellssýslu býður nú upp á námskeiðið, Skaftfellingur skoðar heiminn sem er tileinkað rithöfundinum Þórbergi Þórðarsyni.  Á þessu ári eru tuttugu ár frá stofnun Þórbergsseturs á Hala í Suðursveit.

Skólameistarinn stakk upp á hugmyndinni

Snorri Guðnason 19 ára nemandi við skólann ákvað að fá afa sinn með sér í áfangann eftir að sjálfur skólameistarinn, Guðjón Ragnar Jónasson, kom með þá hugmynd.

„Það var hann Guðjón Ragnar sem bauð mér að taka afa minn með í íslenskuáfanga í fjarnámi,“ segir Snorri.

„Ég greip þetta strax því Þórbergur var mikið uppáhald þegar ég var strákur. Hann var m.a. meistari í að færa okkur inn í heim drauga, álfa og huldufólks,“ segir afinn, Guðni Ágústsson fyrrverandi alþingismaður og ráðherra Framsóknarflokksins.  

Samvinnuverkefni

Þeir félagar ætla að skiptast á þekkingu í áfanganum en tæp 60 ár eru síðan Guðni sat síðast á skólabekk.

„Ég ætla að kenna honum á tölvu og hann kennir mér á bækurnar í staðinn. Hann er íslenskufræðingur og bókmenntamaður. Það verður auðvelt að fá tíu með honum,“ segir Snorri  aðspurður um hvort hann stefni á hæstu einkunn. 

„Ég reyni að fylgja honum ég læt hann ekki slá mig út. Þetta verða líflegir fundir þegar við hittumst til að læra saman,“ segir Guðni um hæl. 

Snorri segir að afi sinn hafi alla tíð haldið að sér bókum og Guðni samsinnir því og bætir við að barnabörnin sjö fluglæs. Guðni er líka þegar farinn að undirbúa sig fyrir námskeiðið og fer með vísu eftir Þórberg Þórðarsson. 

„Tak frá mér Guð allt sósusull,

seiddar steikur og þvílíkt drull.

Gefðu mér á minn græna disk,

grautarslikju og úldinn fisk.“

Framsóknarmaður eins og öll þjóðin

Þrátt fyrir að þeir félagar séu miklir mátar er Snorri ekki búinn að ákveða hvort hann fylgi afa sínum í pólitískum skoðunum aðspurður hvort hann sé Framsóknarmaður. 

„Ekki beint, kannski,“ svara Snorri

Guðni er hins vegar viss um að hjörtu þeirra slái líka þar í takt 

„Jú víst, við hjartað eins og öll þjóðin.“ segir Guðni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×