Skoðun

Það er leikur að læra fyrir suma

Aðalheiður M. Steindórsdóttir skrifar

Á heimasíðu Reykjavíkurborgar er lofað skóla fyrir alla nemendur og að ætíð sé horft á getu hvers og eins og passað upp á hver og einn eintaklingur fá að njóta sín í námi. Á síðunni segir: „Í grunnskólum Reykjavíkur er sérhverju barni mætt í námi og félagsstarfi óháð atgervi þess og stöðu. Nemendum stendur til boða margvísleg aðstoð, svo sem vegna sértækra námserfiðleika, tilfinningalegra eða félagslegra erfiðleika og/eða fötlunar.“ Ég skoða þetta reglulega og veit að þetta er ekki satt. Ég er sjálf kennari og geri mitt besta til þess að mæta nemendum þar sem þeir eru staddir. En það er svo sannarlega ekki hægt ef að einn kennari kennir 25 barna bekk eins og hámarkið segir til um hjá Reykjavíkurborg. Gefa má að um 15 – 20 % af nemendur í rúmlega 20 manna bekk séu með einhvers konar fatlanir, ADHD, einhverfu, mótþróaröskun eða líkamlegar fatlanir. Kennari þarf að geta sinnt öllum sínum nemendum en í þessum aðstæðum mun kennari alltaf standa frammi fyrir vali, Hverja á að aðstoða fyrst? Hverjir þurfa að bíða? Það er vitað mál að með fullmannaðan bekk er engin leið fyrir kennara að veita öllum aðstoð þegar enga hjálp er að fá. Ég horfi aftur til þessara orða sem Reykjavík stendur fyrir og reyni að vinna eftir þessu loforði en raunveruleikinn knýr á dyr og ómögulegt er að halda öllum boltum á lofti.

Til þess að allir geta notið sín í námi og að nám sé fyrir alla þá þurfa að vera fleiri einhverfudeildir og það verður að taka betur utan þann hóp. Við erum að reyna að beygja einstaklinga ofan í form sem þau passa ekki inn í og þá verður skólastofan og skólaumhverfið að skelfilegum stað.

Foreldrar sem eiga börn sem þurfa sérúrræði verða örmagna við að vinna með börnin sín innan þeirra marka sem borgin setur. Þar er eins og áður sagði ekki horft til þarfa barnanna en þess í stað reynt að láta þau passa á einhverja kúrfu sem oftar en ekki er í littlum tengslum við raunveruleikann. Kennarar og stjórnendur sem eru að reyna að vinna í brotnu kerfi og reyna að gera kraftaverk verða fyrir sífelldu aðkasti og sleggjudómum frá alls konar spekúlöntum sem leggja starfinu fáránlegar línur og veita enga aðstoð með. Það þarf að hugsa í lausnum og til langframa.

Ég kenni til dæmis í vesturbæ Reykjavíkur og það er ekki hægt að finna einn skóla með sérdeild vestan megin við Hvassaleitisskóla. Hvassaleitisskóli er með örfá pláss eða réttara sagt um 10 pláss sem eiga að þjóna yngra og miðstigi í grunnskóla. Og svo tekur Réttaholtsskóli við elsta stiginu. Það er svakalega langur biðlisti fyrir hverja einhverfudeild hjá borginni. Það ætti að vera sérdeild í hverjum skóla fyrir sig. Það sjá það allir að það er fráleitt að hafa svona fá pláss á svona stóru svæði í einhverfudeild. Nemendur sem þurfa auka aðstoð í félagslegum samskiptum eru sendir í burtu úr sínu hverfi til þess að sækja skyldumenntun, í burtu frá félagslegu tengingu í sínu nær samfélagi þar sem þau eiga að tengjast börnum í skóla og félagslífi eftir skóla. Þetta er fráleit hugmynd að senda þennan viðkvæma hóp langt í burtu til þess að sækja skyldumenntun. En ef það væri sérdeild þar sem hugsað væri um hvern nemanda út frá þeirra þörfum í hverju hverfi, gætu nemendur fengið félagslega styrkingu og námslegan stuðning, byggt námið út frá þeirra áhugamálum og getu. Fengið hvatningu og styrkingu sem tvinnar saman félagsþroska og námsþroska. Þá fyrst værum við með nám fyrir alla.

Þá gætum við mætt hverju barni eins og stendur á heimasíðu Reykjavíkurborgar, þá getum við farið eftir grunnskólalögum um að börn fái menntun við hæfi óháð fötlun, líkamlegs og andlegs atgerfis. Þá getum við komið til móts við nemendur með fatlanir, hverjar sem þær eru. Byggjum skólakerfið fyrir alla nemendur ekki bara suma.

Höfundur er kennari, þjóðfræðingur og safnafræðingur. 




Skoðun

Sjá meira


×