Erlent

Meðal mögu­leika að greiða Græn­lendingum milljónir

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Meðal þeirra sem eiga að hafa rætt möguleikann eru aðstoðarmenn í Hvíta húsinu.
Meðal þeirra sem eiga að hafa rætt möguleikann eru aðstoðarmenn í Hvíta húsinu. EPA

Bandarískir embættismenn hafa rætt að greiða Grænlendingum eingreiðslur í von um að sannfæra þá um að segja skilið við Danmörku og verða þess í stað hluti af Bandaríkjunum.

Útfærsla og nákvæm upphæð liggja ekki fyrir en embættismennirnir, þeirra á meðal aðstoðarmenn í Hvíta húsinu, hafa nefnt tölur frá tíu þúsund dollurum upp í hundrað þúsund dollara fyrir hvern einstakling. Það samsvarar rúmum 1,2 milljónum íslenskra króna í rúmar 12,6 milljónir króna. Íbúar á Grænlandi eru um 57 þúsund.

Þetta herma heimildir Reuters, sem hefur rætt við fjóra heimildarmenn sem þekkja til málsins.

Undanfarnar vikur hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti ítrekað sagt að mikilvægt sé að Bandaríkin eignist Grænland. Það gerir hann þrátt fyrir að bæði Danir og Grænlendir hafi neitað honum og segja landið ekki til sölu.

Í svari frá Hvíta húsinu sem greint var frá fyrr í vikunni sagði að ýmsir möguleikar væru til skoðunar, þar á meðal að beita hervaldi til að taka yfir landið. 

Sjá nánar: Hótanir Bandaríkjanna vegna Grænlands

Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði að áherslan væri lögð á að festa kaup á landinu. Ráðamenn halda samt sem áður áfram að ítreka ósk sína og nú síðast sagði Trump að Bandaríkin þurfi að eiga Grænland til að koma í veg fyrir að Rússland og Kína geri það.

Lars Lokke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur, og Rubio munu funda um Grænland í næstu viku. Vivian Motzfeldt, utanríkisráðherra Grænlands, verður einnig viðstödd fundinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×