Fótbolti

TikTok í fyrsta sæti á HM í fót­bolta í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi með heimsbikarinn í Katar 2022 en FIFA hefur valið TikTok sem aðalvettvang sinn fyrir myndefni á samfélagsmiðlum á heimsmeistaramóti karla í fótbolta næsta sumar.
Lionel Messi með heimsbikarinn í Katar 2022 en FIFA hefur valið TikTok sem aðalvettvang sinn fyrir myndefni á samfélagsmiðlum á heimsmeistaramóti karla í fótbolta næsta sumar. Getty/Marcelo Endelli

Alþjóðaknattspyrnusambandið hefur valið TikTok sem aðalvettvang sinn fyrir myndefni á samfélagsmiðlum á heimsmeistaramóti karla í fótbolta næsta sumar en knattspyrnusambandið gaf þetta út í gær.

Samstarfið á HM mun veita efnishöfundum sérstakan aðgang að mótinu, sem telur 48 þjóðir og er haldið í sextán borgum, ellefu í Bandaríkjunum, þremur í Mexíkó og tveimur í Kanada, frá 11. júní til 19. júlí 2026.

FIFA sagði að handhafar útsendingarréttar HM geti streymt hlutum úr leikjunum 104 í beinni útsendingu á sérstakri miðstöð í TikTok-appinu, sem hefur yfir 170 milljónir notenda í Bandaríkjunum.

„Auk þess mun stór hópur efnishöfunda fá tækifæri til að nota og taka þátt í að búa til efni úr skjalasafni FIFA,“ sagði FIFA í tilkynningunni.

Sögðu ekki frá verðmæti samningsins

FIFA tilgreindi ekki verðmæti samningsins, né upplýsingar um útboðsferli eða samkeppnisaðila. YouTube var með minni háttar styrktarsamning sem fól í sér aðgang fyrir efnishöfunda á HM 2022 í Katar.

FIFA tilgreindi heldur ekki hvers konar efni í beinni útsendingu verður hægt að streyma á þessu ári, á móti þar sem einkaréttur viðskiptaaðila er auðvitað stranglega varinn.

Samstarf TikTok við MLS-deildina og Apple TV leiddi meðal annars til þess að vettvangurinn birti myndefni úr myndavélum sem voru eingöngu tileinkaðar því að fylgjast með fótboltagoðsögninni Lionel Messi spila í leikjum fyrir Inter Miami.

Fá að sjá bak við tjöldin

FIFA lofaði aðdáendum að þeir fengju að sjá á bak við tjöldin og vera nær hasarnum en nokkru sinni fyrr en það staðfesti aðalritari sambandsins, Mattias Grafström.

TikTok varð mest niðurhalaða símaapp í heimi á sama tíma og því stóð ógn af því að vera lokað í Bandaríkjunum vegna þjóðaröryggis.

Í desember samþykkti ByteDance, móðurfyrirtæki TikTok í Kína, að stofna bandarískt samrekstrarfyrirtæki með fjárfestunum Oracle, Silver Lake og MGX. Áætlað er að gengið verði frá þeim samningi síðar í þessum mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×