Skoðun

Fjöl­skyldur í fyrsta sæti í Kópa­vogi

Eydís Inga Valsdóttir skrifar

Ég er alin upp á landsbyggðinni og það sem heillaði mig við Kópavog var að þetta er eins og að búa í litlum bæ í borg. Hér er að finna nálægð við náttúru og samheldið samfélag, en líka fjölbreytt tækifæri, mannlíf og þjónustu sem ekki finnast alls staðar annars staðar á landinu og þóttu alls ekki sjálfsögð þegar ég var að alast upp. Að velja Kópavog sem stað til að búa á og ala upp börn eftir langa dvöl erlendis var því ekki erfið ákvörðun.

Það er mér mjög mikilvægt að taka þátt í samfélaginu mínu. Ég hef reynt að leggja mitt af mörkum í foreldrasamstarfi og vera virk í skólasamfélaginu og frístundum barnanna minna. Samhliða þessu hefur mér orðið ljóst, bæði af eigin reynslu og í samtölum við aðra foreldra, hversu snúið daglegt líf fjölskyldna getur verið. Það er erfitt að finna laust pláss hjá dagmömmu, láta dæmið ganga upp með sex tíma vistun á leikskóla eða fá aðgang að lögbundinni þjónustu, eins og talmeinafræðingi eða sálfræðingi. Þetta eru ekkert alltaf stór mál í sjálfu sér, en þau geta haft mikil áhrif á daglegt líf fólks.

Ég sat í foreldraráði við innleiðingu nýs leikskólakerfis í Kópavogi. Þar var verið að bregðast við langvarandi vanda sem við þekkjum öll og kerfi sem hafði verið undir miklu álagi, ekki síst í kjölfar heimsfaraldurs. Í þeirri vinnu kom þó í ljós skortur á gagnsæi og fyrirsjáanleika fyrir foreldra. Sú reynsla gerði mér ljóst hversu mikilvægt er að ákvarðanir séu teknar með áhrif þeirra á velferð fjölskyldna í huga og í raunverulegu samtali við íbúa.

Það er mikilvægt að sveitarfélagið axli meiri ábyrgð, svo byrðin falli ekki fyrst og fremst á foreldra. Síhækkandi gjaldtaka á barnafjölskyldur hefur áhrif á daglegt líf ungs fólks sem er að reyna að samræma vinnu, fjölskyldulíf og fjárhag, og aukið álag á heimilin bitnar á börnum og ungmennum.

Foreldrar eiga að geta treyst því að sveitarfélagið standi með þeim í uppeldi barna og að börn og ungmenni fái stuðning sem mætir þörfum þeirra. Til þess þarf skýra forgangsröðun, ábyrga fjármálastjórn og ákvörðunartöku sem tekur mið af raunverulegu lífi fjölskyldna.

Ég býð mig fram vegna þess að ég vil leggja mitt af mörkum til að Kópavogur verði sveitarfélag sem styður við barnafjölskyldur og gerir ungu fólki auðveldara að stofna fjölskyldu, í stað þess að hækka álögur og skerða þjónustu. Ég vil skapa samfélag í Kópavogi sem setur fjölskyldur í fyrsta sæti.

Höfundur býður sig fram í 2. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar í Kópavogi sem fer fram þann 7. febrúar 2026.




Skoðun

Sjá meira


×