Erlent

Danskir og banda­rískir erind­rekar funda um Græn­land í næstu viku

Agnar Már Másson skrifar
Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AP/Julia Demaree Nikhinson

Marco Rubio utanríkisráðherra Bandaríkjanna hefur staðfest að danskir og bandarískir erindrekar muni eiga fund saman í næstu viku um Grænland. Bandaríkjaforseti og þjóðaröryggisráð eigi í virku samtali um möguleg kaup á eyjunni.

„Ég mun hitta þá í næstu viku,“ sagði Rubio við blaðamenn í Washington eftir hádegi í dag en neitaði að tjá sig um hugsanlega hernaðaríhlutun Bandaríkjanna til að ná Grænlandi á sitt vald, að því er DR greinir frá.

Vivian Motzfeldt, utanríkisráðherra Grænlendinga, segist munu taka þátt á fundinum að sögn grænlenska miðilsins Sermitisiaq. „Auðvitað tek ég þátt, það er okkar land auk Danmerkur sem hefur farið fram á fundinn.“

Skömmu síðar, á sjötta tímanum eftir hádegi, staðfesti Karoline Leavitt, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, að Trump og þjóðaröryggisráð hans hefðu átt samræður um möguleg kaup á eyjunni. „Allir möguleikar eru á borðinu,“ sagði Leavitt á blaðamannafundi í dag.

Spenna hefur magnast milli Dana, Bandaríkjamanna og Grænlendinga þar sem Donald Trump Bandaríkjaforseti og stjórn hans hafa lýst því forgangsatriði í þjóðaröryggismálum að ná eyjunni, sem lútir danskri krúnu, á sitt vald.

Innrás sem Bandaríkin gerðu um helgina inn í Venesúela til að leggja meðal annars undir sig auðlindir þar hefur vakið spurningar hvort Bandaríkjaforseti beiti sömu brögðum í Grænlandi.

BBC hafði eftir yfirlýsingu frá Hvíta húsinu í dag að bandarísk stjórnvöld könnuðu möguleika á að leggja Danmörku undir sig, þar á meðal notkun hersins. Mette Frederiksen forsætisráðherra Dana hefur gert það ljóst að hernaðaríhlutun af hálfu Bandaríkjanna jafngildi endalokum Nató.

Rubio sagði að það hafi ávallt verið áætlun Trumps að kaupa Grænland. „Það er ekkert nýtt. Hann talaði um það á sínu fyrsta kjörtímabili,“ sagði Rubio. „Hann er heldur ekki fyrsti forsetinn sem vill kanna hvernig við getum lagt undir okkur Grænland,“ bætti hann við og nefndi Harry Truman fyrrv. forseta í því samhengi sem reyndi að kaupa landið 1946.

Rubio sagði að ef Bandaríkjaforsetar skilgreindu nokkra ógn við land sitt geti þeir ávallt áskilið sér þann möguleika að beita herafla, en fyrst vilji þeir reyna diplómatískar boðleiðir. „Þar á meðal í Venesúela. Við reyndum ítrekað að komast að niðurstöðu sem fólst ekki í því að fara inn og grípa ákærðan dópsmyglara,“ bætti Rubio við með vísan til Nicolás Maduro.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×