Bíó og sjónvarp

Béla Tarr er látinn

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Béla Tarr var einn þekktasti kvikmyndagerðarmaður Ungverja.
Béla Tarr var einn þekktasti kvikmyndagerðarmaður Ungverja. Getty

Ungverski leikstjórinn Béla Tarr, sem er þekktastur fyrir myndirnar Sátántangó og Turin-hestinn, er látinn sjötíu ára að aldri.

Samtök ungverskra kvikmyndagerðarmanna greindu frá því að „eftir löng og erfið veikindi“ hefði Tarr látist í morgun. Fréttamiðillinn AP greinir frá.

Tarr fæddist 20. júlí 1955 í Pécs en ólst upp í Búdapest. Hann var af mikilli listafjölskyldu, faðir hans var leikmyndahönnuður í kvikmyndum og leikhúsi, móðir hans vann sem hvíslari í leikhúsi og bróðir hans var listmálari.

Tarr fékk 8mm myndavél í fjórtán ára afmælisgjöf frá föður sínum og stofnaði kvikmyndagerðarhóp þegar hann var sextán ára. Tarr ætlaði að læra heimspeki í háskóla en komst ekki að þannig hann vann við ýmiss störf samhliða því að gera heimagerðar kvikmyndir.

Langar, hægar og svarthvítar

Fyrsta mynd Tarr í fullri lengd var svarthvíta dramað Családi tűzfészek (1979) eða Fjölskylduhreiðrið. Næstu fjóra áratugina leikstýrði Tarr átta kvikmyndum til viðbótar, þar á meðal Sátántangó (1994), Werckmeister harmóniák (2000) og A torinói ló (2011). 

Tarr var margverðlaunaður fyrir kvikmyndir sínar, þar á meðal á kvikmyndahátíðinni í Cannes, í Berlín og Bergamo og svo var hann gerður að heiðursprófessor við Wuhan-háskóla árið 2017.

Tarr bjó yfir afgerandi stíl, gerði jafnan langar svarthvítar myndir sem einkenndust af hægri framvindu, löngum dáleiðandi skotum og takmarkaðri framvindu á kostnað drungalegrar stemmingar. Tarr settist í helgan stein árið 2011, flutti til Sarajevo og stofnaði kvikmyndaskólann film.factory.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.