Innlent

Tveir hand­teknir fyrir brot á skotvopnalögum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögreglan og sérsveit Ríkislögreglustjóra stóðu í aðgerð í Rimahverfi í gær.
Lögreglan og sérsveit Ríkislögreglustjóra stóðu í aðgerð í Rimahverfi í gær. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í gærkvöldi tvo menn í heimahúsi í Grafarvogi fyrir brot á skotvopnalögum. Frá þessu er greint í yfirliti lögreglu yfir verkefni gærkvöldsins og næturinnar en leiða má líkur að því að um sé að ræða sömu aðgerð og greint var frá í gærkvöldi, þar sem sérsveitin kom við sögu.

Helena Rós Sturludóttir, samskiptastjóri Ríkislögreglustjóra staðfesti í gær að sérsveitin hefði átt aðkomu að aðgerðum lögreglu í Rimahverfi í Grafarvogi en lögregla gat á þeim tímapunkti ekki veitt nánari upplýsingar um málið.

Í yfirlitinu sem lögregla sendi frá sér í morgun segir hins vegar að annar handteknu hafi verið vistaður í fangageymslu en hinn á Stuðlum, sökum aldurs.

Þá er einnig greint frá því að annar maður hafi verið handtekinn í póstnúmerinu 112 fyrir að fara ekki að fyrirmælum lögreglu. Lögregla rannsakar einnig innbrot og þjófnað í heimahúsi í Garðabæ og stöðvaði einn í miðborginni og sektaði fyrir að aka á göngugötu.

Uppfært klukkan 8:55:

Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sem sent var á fjölmiðla í morgun, segir að tveir piltar hafi verið handteknir í umræddum aðgerðum lögreglu eftir að tilkynnt hafi verið um vopnaða menn í hverfinu. 

„Lögreglan brást skjótt við tilkynningunni og fann svo mennina í heimahúsi. Þar reyndust einnig vera tvö skotvopn, sem lagt var hald á. Aðilarnir eru báðir innan við tvítugt og var annar færður á Stuðla, en hinn í fangageymslu lögreglunnar. Rannsókn lögreglu beinist m.a. að því hvort piltarnir hafi ætlað að nota skotvopnin til að ógna öðrum.

Nokkur viðbúnaður var vegna málsins, en þó hefðbundinn í ljósi tilkynningarinnar og naut embættið aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra á vettvangi í gærkvöld,“ segir í tilkynningunni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×