Atvinnulíf

996 vinnu­vikan að ryðja sér til rúms á ný (72 klukku­stundir)

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Hraðinn í tækniþróun er sagður vera orðinn þannig að fyrirtæki verða einfaldlega að krefjast þess að fólk vinni lengri vinnuviku ætli það sér ekki að verða undir í samkeppninni. Sú er alla vega sögð staðan í Kísildal en 996 vinnuvikan gæti reyndar verið þekktari á mun fleiri stöðum en þar.
Hraðinn í tækniþróun er sagður vera orðinn þannig að fyrirtæki verða einfaldlega að krefjast þess að fólk vinni lengri vinnuviku ætli það sér ekki að verða undir í samkeppninni. Sú er alla vega sögð staðan í Kísildal en 996 vinnuvikan gæti reyndar verið þekktari á mun fleiri stöðum en þar. Vísir/Getty

Þrátt fyrir allt þetta tal um kulnun eða styttingu vinnuvikunnar, er nýtt trend að sýna sig vestanhafs kallað 996 vinnuvikan. Sem eflaust er nokkuð algengara á Íslandi en margan grunar.

Það sem 996 vinnuvikan vísar til, er gamalt og mjög umdeilt kerfi frá Kína sem byggir á að fólk vinni frá klukkan 9-21 sex daga vikunnar. Samtals 72 klukkustundir.

Sveigjanleiki í starfi er hins vegar þekktari í dag en áður og því getur útfærslan á 996 vikunni verið öðruvísi en sú að fólk vinni frá 9-21 sex daga vikunnar. En þó samtals 72 klukkustundir að lágmarki yfir vikuna.

Og það er akkúrat það sem við ætlum að ræða.

Því á eftirsóttum vinnustöðum vestanhafs er 996 vikan að sýna sig sem nýtt trend.

Í New York Times er til dæmis talað um að 996 vikan sé orðið að nýja norminu í Kísildal. Þar sem tæknifyrirtæki eru mörg hver farin að tilgreina það í auglýsingum um ný störf að unnið sé eftir 996 vinnukerfisvikunni.

Skýringin er sögð gervigreindin og sá hraði sem fylgir allri tækniþróun í dag. Þau tæknifyrirtæki sem ekki séu tilbúin til að gera meira, vinna meira og hlaupa hraðar, séu einfaldlega í hættu á að verða undir í samkeppninni. 

Í Business Insider segir að 996 vinnuvikan sé hins vegar mjög þekkt fyrirbæri hjá mun fleiri tæknifyrirtækjum en í Kísildal. Þekkt alþjóðleg stór fyrirtæki eins og Google, Meta og Amazon byggi í raun á sambærilegu kerfi en fari laumulegra með það. 

Það sem þetta þýðir er að ætli fólk sér að ná sér langt innan fyrirtækjanna, sé það regla frekar en undantekning að fólk þurfi þá að vinna að lágmarki 72 klukkustundir + yfir vikuna.

Fuss og svei segja nú eflaust margir. Enda þróun mikil öfugmæli við allt sem rannsóknir segja um það sem æskilegast er fyrir okkur. Ekki aðeins með tilliti til kulnunar, heldur líka þess að almennt benda rannsóknir til þess að það að vinna of mikið árum saman, leiði oft á endanum til verri heilsu en ella.

Sumsé; heilsuskatturinn er greiddur á endanum.

En stöldrum nú aðeins við...

Hversu algengt er það á Íslandi að fólk sé að vinna 996 vinnuviku, eða sem samsvarar 72 klukkustundir yfir vikuna? 

Hér má til dæmis benda á þrjá hópa:

Stjórnendur eru margir hverjir gjarnir á að vera „alltaf“ að vinna; vakandi og sofandi nánast. Þá er fljótt talið í 72 klukkustundir samtals.

Sumir vinna vaktavinnu og treysta á aukapeninginn fyrir aukavaktirnar. Útkoma: 72 klukkustundir. Það sama gæti átt við um fólk sem starfar í aukavinnu með fullri vinnu.

Enn annar hópurinn sem oft vinnur langa vinnudaga og eflaust fleiri stundir en 72 klukkustundir samtals er síðan hópurinn sem setti lögin um styttingu vinnuvikuna: Þingmenn. Eða hvað ætli vinnuvikustundirnar telji hjá þeim samanlagt, sérílagi þegar það er málþóf?

Uppfært: Í upphaflegri grein stóð að 996 vikan byggi á kínverska vinnufyrirkomulaginu 9-18, í stað 9-21. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.  


Tengdar fréttir

Næsti yfirmaðurinn þinn gæti verið gervigreind

Nú þegar heilu bíómyndirnar eru framleiddar án mannfólks er það að verða sýnilegra með hverjum deginum, hvernig gervigreindin mun taka yfir ólíklegustu hlutverk í atvinnulífinu.Þar á meðal hlutverk stjórnenda.

Spáir því að vinnuvikan styttist fljótlega í 35 stundir og síðan 30

Ásberg Jónsson framkvæmdastjóri Nordic Visitor spáir því að mörg fyrirtæki muni á þessum áratug stytta vinnuvikuna enn meir en nú er oft rætt um. „Ég trúi því að við förum almennt að verðmeta tíma okkar á annan hátt og þar muni frístundir vega hærra. Ég er nokkuð sannfærður um að eftir ekki svo mörg ár verði flestir vinnustaðir landsins búnir að stytta vinnuvikuna niður í 35 tíma og fyrir lok þessar áratugar verði fjöldi fyrirtækja kominn niður í 30 tíma vinnuviku,“ segir Ásberg.

„Eða komast allir að á föstudögum í klippingu?“

„Það sem við finnum einna sterkast er að viðhorf stjórnenda skiptir lykilmáli, hvort þeir sýni vilja og stuðning sinn í verki, sýni gott fordæmi, skoði verkefnaval og forgangsröðun í samræmi við styttinguna og séu tilbúnir að treysta starfsmönnum sínum til að skila góðu verki þótt þeir vinni styttri vinnuviku eða nýti sér annan sveigjanleika í starfi. Það sem skiptir þó mestu máli er að lykilstjórnendur sammælist um markmið með breytingunni og trúi á að hún muni skila vinnustaðnum velsæld,“ segir Guðríður Sigurðardóttir hjá Attentus um styttingu vinnuvikunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×