Enski boltinn

Segja að Liverpool líti á Harvey Elliott sem vanda­mál Aston Villa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harvey Elliott hefur fengið fá tækifæri hjá Aston Villa en félagið þarf að kaupa hann spili hann tíu leiki.
Harvey Elliott hefur fengið fá tækifæri hjá Aston Villa en félagið þarf að kaupa hann spili hann tíu leiki. Getty/Shaun Brooks

Unai Emery knattspyrnustjóri Aston Villa segir að félagið hafi efast um það fyrir tveimur mánuðum að það væri rétt að kaupa Harvey Elliott frá Liverpool. 

Framherjinn kom frá Liverpool í september á lánssamningi út tímabilið, með kaupskyldu upp á 35 milljónir punda ef hann spilaði tíu leiki í ensku úrvalsdeildinni.

Breska ríkisútvarpið fjallar um stöðu Elliott og hefur heimildir fyrir því að Charlotte FC í MLS-deildinni hafi áhuga á Elliott, en hinn 22 ára gamli leikmaður er ekki spenntur fyrir því að flytja til Ameríku.

Aðeins spilað fimm sinnum undir stjórn Emery

Elliott hefur aðeins spilað fimm sinnum undir stjórn Emery og kom síðast við sögu sem varamaður seint í leik gegn Feyenoord í Evrópudeildinni þann 2. október.

„Vandamálið sem við höfum með Harvey er að hann er á láni í ár og ef hann spilar leiki verðum við að kaupa hann. Við ákváðum fyrir tveimur mánuðum að við værum ekki sannfærðir um að kaupa hann og eyða þeim peningum sem við þyrftum til þess,“ sagði Unai Emery.

Hegðar sér vel en svona er fótboltinn

„Þetta er eina málið. Hann æfir á hverjum degi, sýnir alltaf mjög góða hegðun og hjálpar okkur á æfingum. Þetta er ekki gott fyrir hann og ekki gott fyrir okkur, en svona er fótboltinn og stundum verðum við að taka ákvarðanir sem eru ekki góðar fyrir alla,“ sagði Emery.

Elliott, sem fór á kostum með U21-landsliði Englands þegar það vann Evrópumeistaratitilinn síðasta sumar, byrjaði aðeins tvo leiki í ensku úrvalsdeildinni þegar Liverpool vann titilinn á síðasta tímabili.

Hann hefur aðeins byrjað einu sinni í deildinni fyrir Villa og skoraði eina mark sitt gegn Brentford í deildabikarnum í september.

Elliott gæti ekki spilað fyrir annað evrópskt félag á þessu tímabili þar sem hann hefur þegar spilað fyrir Liverpool og Villa á tímabilinu 2025-26.

Liverpool gæti þurft á honum að halda

Miðað við meiðslavandræði Liverpool er ekki útilokað að Elliott endi félagaskiptagluggann aftur í hóp Arne Slot, en samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins er afstaðan á Anfield sú að þetta sé alfarið vandamál sem Aston Villa þurfi að leysa.

Það er ekkert endurköllunarákvæði í núverandi samningi og aðeins er búist við því að Liverpool taki þátt í viðræðum ef Villa hefur frumkvæði að því að Elliott snúi aftur til Anfield.

„Nei, Harvey er leikmaður Aston Villa“

Ef svo færi yrði búist við því að Villa greiddi gjald fyrir að rifta lánssamningnum og tæki hugsanlega þátt í að greiða laun Elliott. Þegar Elliott fór á lán í sumar gerði Liverpool ráð fyrir því í fjárhagsáætlun sinni að félagaskiptin yrðu varanleg sumarið 2026.

Slot stjóri Liverpool var nýlega spurður hvort félagið hefði kannað möguleikann á að fá Elliott aftur og hann sagði: „Nei, Harvey er leikmaður Aston Villa og hann á að vera þar út tímabilið,“ sagði Slot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×