Enski boltinn

Skírður í sjónum á ströndinni í Bournemouth

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antoine Semenyo fór á bólakaf eins og má sjá hér.
Antoine Semenyo fór á bólakaf eins og má sjá hér. @antoinesemenyo

Enski knattspyrnumaðurinn Antoine Semenyo er að yfirgefa Bournemouth í janúarglugganum en hann lét skíra sig áður en hann flytur sig frá suðurströndinni og norður í land.

Allt bendir til þess að versta geymda leyndarmálið í þessum glugga sé að Semenyo sé á leiðinni til Manchester City.

65 milljóna punda klásúla

Leikmaðurinn er með klásúlu í samningnum sem gefur öðrum félögum tækifæri til að kaupa upp samning hans fyrir 65 milljónir punda.

Stóru liðin í ensku úrvalsdeildinni höfðu flest áhuga á að fá þennan öfluga leikmann á þessu tilboðsverði en það leit fljótlega út fyrir að bæði Liverpool og Manchester United yrðu undir í baráttunni við City.

Hinn 25 ára gamli Semenyo er fæddur í Chelsea-hverfinu í London en byrjaði fótboltaferil sinn hjá Bristol City. Hann hefur verið hjá Bournemouth frá janúar 2023.

Hann framlengdi samning sinn í júlí á síðasta ári til ársins 2023 en með fyrrnefndri klásúlu.

Trúlofaði sig líka 

Þetta eru viðburðarríkir mánuðir fyrir Semenyo því hann bað kærustu sinnar, Jordeen Buckley, 18. nóvember, lét síðan skíra sig í sjónum á ströndinni í Bournemouth á síðustu dögum ársins og er nú á leiðinni til margfaldra Englandsmeistara.

Semenyo ákvað að játa trú sína opinberlega áður en hann færði sig til Manchester-borgar. Hann deildi myndbandi af skírn sinni á ströndinni en hann hefur lofað áhrif trúarinnar á farsælasta fótboltaár sitt til þessa.

„Ég veit ekki hvar ég á að byrja,“ skrifaði framherji Bournemouth á Instagram þar sem hann birti uppáhalds augnablikin sín frá síðasta ári.

Kærleikurinn var óendanlegur

„Kærleikurinn var óendanlegur. Þessar myndir segja ekki einu sinni alla söguna en ég þakka þér, Guð, fyrir vernd þína, blessun þína og verk þitt í lífi mínu. 2026, við erum klár!“

Myndirnar sem Semenyo deildi voru allt frá skyndimyndum af dachshund-hundinum sínum til stunda með kærustu sinni, áhrifavaldinum Jordeen, og fjölskyldu sinni. Það sem var þó gegnumgangandi voru tilvísanir í trú hans, þar á meðal myndband af honum taka skrefið og gangast undir kristna trú á sólríkum degi.

Semenyo var klæddur í hvíta skyrtu og svartar buxur en honum var síðan dýft á kaf á meðan öldurnar brotnuðu við ströndina. Eftir að hafa risið á fætur horfði hann til himins með breitt bros á vör.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×