Erlent

Neita að ræða við Úkraínu­menn vegna meintrar á­rásar á heimili Pútíns

Samúel Karl Ólason skrifar
Dmitrí Peskóv og Vladimír Pútín.
Dmitrí Peskóv og Vladimír Pútín. AP/Mikhail Metzel, Sputnik

Ráðamenn í Rússlandi ætla að herða kröfur sínar gagnvart Úkraínumönnum í vegna meintrar drónaárásar á eitt af heimilum Vladimírs Pútín, forseta Rússlands, og vilja ekki eiga beinar viðræður við Úkraínumenn. Ráðamenn í Úkraínu segja enga slíka árás hafa verið gerða en Rússar hafa engar sannanir fært fyrir því að árásin hafi verið gerð og eiga sér langa sögu ósanninda.

Dmitrí Peskóv, talsmaður Pútíns, sagði í samtali við blaðamenn í morgun að hin meinta árás væri hryðjuverk og að Rússar myndu bregðast við. Hann vildi ekki segja hvernig en hann sagði að vegna þessarar meintu árásar myndu Rússar ekki eiga í beinum viðræðum við Úkraínumenn um frið og myndu þess í stað eingöngu ræða við Bandaríkjamenn.

Sjá einnig: Pútín sagður hafa valið Witkoff

Peskóv sagði að með árásinni vildu Úkraínumenn skemma viðleitni Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, til að finna friðsamlega lausn á þessum „flóknu átökum,“ eins og Peskóv lýsti þeim.

Sjá einnig: Selenskí sver af sér drónaárás á heimili Pútíns

Steve Rosenberg, fréttamaður BBC í Moskvu, birti í dag myndband þar sem hann fer yfir umfjöllun rússneskra ríkisrekinna dagblaða í morgun. Þar er því meðal annars haldið fram að nú hafi Rússar frjálsar hendur í Úkraínu og að friður fari eingöngu eftir því hversu langt rússneskir hermenn sækja fram.

Sagðist ætla að „frelsa“ Novorossia

Frá því Rússar hófu innrásina í Úkraínu hafa kröfur þeirra gagnvart Úkraínumönnum lítið breyst. Allri viðleitni varðandi frið eða vopnahlé hefur verið hafnað af Rússum en ráðamenn þar hafa iðulega kennt Úkraínumönnum eða bakhjörlum þeirra í Evrópu um, á sama tíma og þeir hafa lofað Trump í hástert.

Pútín og ráðamenn hans hafa orðið sífellt harðorðari í garð Evrópu að undanförnu og saka meðal annars Evrópumenn um að standa í vegi friðar. Orðræða þessi virðist hafa aukist samhliða versnandi samskiptum margra ríkja Evrópu við Bandaríkin.

Sjá einnig: Segir „evrópsk svín“ vilja hagnast á falli Rússlands

Pútín fundaði með herforingjum sínum í gær en þá sagði hann meðal annars að rússneski herinn væri að „frelsa“ Donbas-svæðið og svæði sem hann kallaði „Novorossia“. Það er nafn yfir allan suðurhluta Úkraínu sem notað var á tímum rússneska keisaraveldisins. Það svæði nær yfir alla strandlengju Úkraínu og mun stærri hluta landsins en Rússar gera þegar tilkall til.

Rússar hafa innlimað fimm héruð Úkraínu inn í Rússneska ríkissambandið, samkvæmt breytingum sem gerðar voru á stjórnarskrá Rússlands á undanförnum árum. Um er að ræða Krímskaga, Kherson, Sapórisjía, Dónetsk og Lúhansk.

Af þessum héruðum stjórna Rússar eingöngu Krímskaga og Lúhansk að fullu. Þeir stjórna stórum hluta Dónetsk en hafa átt í töluverðu basli með að ná héraðinu að fullu. Yfirráðasvæði Úkraínumanna þar er talið mjög víggirt.

Á áðurnefndum fundi í gær sagði Pútín einnig að öllum markmiðum hinnar sértæku hernaðaraðgerðar, eins og hann kallar innrásina í Úkraínu, yrði náð.

Enginn fordæmdi árás á ríkisstjórnarbygginguna

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, sagðist á dögunum tilbúinn til viðræðna við Pútín en það var eftir að hann fundaði með Trump í Flórída. Selenskí sagði þó að orð Pútíns þyrftu að vera í samræmi við gjörðir hans.

Það skyti skökku við þegar Pútín sagðist vilja frið á sama tíma og hann sagðist ætla að halda áfram að skjóta eldflaugum að úkraínskum borgum.

Sjá einnig: Vill lengri tryggingar og tilbúinn til að hitta Pútín

Andrii Sybiha, utanríkisráðherra Úkraínu, ítrekaði í yfirlýsingu í morgun að Úkraínumenn hefðu ekki gert drónaárás á heimili Pútíns. Þá lýsti hann yfir vonbrigðum með að þjóðarleiðtogar eins og Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, og aðrir hefðu lýst yfir áhyggjum vegna árásar sem hefði aldrei átt sér stað.

Það væri sérstaklega óvænt þar sem hvorki Modi, né leiðtogar Pakistan og Sameinuðu furstadæmanna, sem hafa lýst yfir áhyggjum vegna meintu árásarinnar, sögðu ekkert þegar rússnesk eldflaug lenti á ríkisstjórnarbyggingu Úkraínu í Kænugarði í september.

Sybiha sagði að viðbrögð sem þessi væru eingöngu til þess fallin að hvetja Rússa til frekari lyga og áróðurs.

Pútín sagði mér það

Trump var spurður út í hina meintu árás á heimili Pútíns í gær. Hann sagðist ekki ánægður með árásina og að hann hefði heyrt af henni frá Pútín sjálfum. Þá vísaði hann til þess að hann hefði neitað að selja Úkraínumönnum stýriflaugar.

Hann sagðist hafa orðið reiður þegar Pútín sagði honum frá árásinni en þegar blaðamaður spurði hvort það væru einhverjar sannanir fyrir því hvort að árásin hefði átt sér stað og hvort að leyniþjónustur hans hefðu ekkert honum sagði Trump að Pútín hefði sagt sér að árásin hafi verið gerð.


Tengdar fréttir

Trump telur friðarsamkomulag mögulegt innan nokkurra vikna

„Ég held að við séum að færast talsvert nær, við erum jafnvel komin ansi nálægt,“ sagði Donald Trump Bandaríkjaforseti að loknum fundi hans og Vólódímírs Selenskíjs Úkraínuforseta á heimili þess síðarnefnda í Mar-a-Lago í Flórída.

Átti gott samtal við Pútín

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist hafa átt gott og mjög áhrifaríkt samtal við Vladímír Pútín Rússlandsforseta á símafundi þeirra í dag.

„Rúllandi rafmagnsleysi“ alla daga og tífaldur þungi í árásum

Íbúar Úkraínu glíma við nær daglegt rafmagnsleysi og svefnfriður er jafnan lítill þegar hvað mest lætur í árásum Rússa. Íslendingur í Kænugarði segir umfang loftárása Rússa hafa tífaldast frá því í fyrra með tilliti til fjölda vopna sem nýtt eru til árása á Úkraínu. Það sé til marks um mikla framleiðslugetu Rússa sem sé ekki aðeins áhyggjuefni fyrir Úkraínu heldur Evrópu alla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×