Lífið

Kimmel á­varpar bresku þjóðina: Frá­bært ár fyrir fas­isma

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Jimmy Kimmel mun ávarpa bresku þjóðina.
Jimmy Kimmel mun ávarpa bresku þjóðina. Matt Winkelmeyer/The Hollywood Reporter via Getty Images)

Bandaríski spjallþáttastjórnandinn Jimmy Kimmel mun ávarpa bresku þjóðina í árlegu hátíðarávarpi sem sýnt er á Channel 4 sjónvarpsstöðinni. Þar mun hann rifja upp árið sem er að líða og þegar þáttur hans var tekinn af dagskrá um stund.

Stöðin fær á hverju ári óvenjulega einstaklinga til að halda nýársávarp og tala til bresku þjóðarinnar. Meðal þeirra sem hafa haldið ávarpið er uppljóstrarinn Edward Snowden og fyrrverandi forseti Írans Mahmoud Ahmadinejad. Breska blaðið Guardian segir að spjallþáttastjórnandinn muni gagnrýna bandarísk yfirvöld mjög í ávarpi sínu.

„Frá sjónarhóli fasisma, þá hefur þetta verið virkilega frábært ár,“ mun sjónvarpsmaðurinn meðal annars segja í ávarpi sínu. Spjallþáttur hans til margra ára var skyndilega tekinn af dagskrá ABC sjónvarpsstöðvarinnar í september eftir að hann sakaði hreyfingu Trump-liða um að nýta sér morðið á Charlie Kirk í pólitískum tilgangi.

Trump hrósaði stjórnendum ABC sjónvarpsstöðvarinnar í hástert fyrir ákvörðunina en eigandi stöðvarinnar Disney var undir mikilli pressu frá Hvíta húsinu vegna málsins. Rifjað er upp í umfjöllun Guardian að ákvörðunin hafi vakið mikla neikvæða athygli og verið harðlega gagnrýnd víða, sem svo varð til þess að þáttur Kimmel var tekinn aftur til sýninga nokkrum dögum síðar.

Segir miðillinn að sjónvarpsmaðurinn muni sérstaklega þakka þeim fyrir sem hafi komið honum til varnar. Haft er eftir Channel 4 að forsvarsmönnum sjónvarpsstöðvarinnar hafi þótt einkar viðeigandi að Kimmel myndi ávarpa bresku þjóðina á þessum tímamótum, í ljósi endurkomu Donalds Trump í Hvíta húsið og baráttuna fyrir málfrelsi.


Tengdar fréttir

Segir Fallon og Meyers næsta: „Gerið þetta NBC!!!“

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, fagnaði því í nótt að forsvarsmenn Disney og sjónvarpsstöðvarinnar ABC, sem er í eigu Disney, hefðu tekið þá ákvörðun að hætta að sýna þátt Jimmy Kimmel í óákveðinn tíma, eftir að yfirmaður Fjarskiptastofnunar Bandaríkjanna (FCC), gaf til kynna að útsendingaleyfi gæti verið tekið af sjónvarpsstöðvum sem sýna þættina.

Lofuðu Trump í Norður-Kóreustíl

Stjórnendur spjallþátta vestanhafs voru nokkuð þungir á brún vegna þess að þáttur Jimmys Kimmel var tekinn úr loftinu í vikunni en gerðu þrátt fyrir það stólpagrín að vendingunum og Donald Trump, forseta, þar sem þeir lofuðu hann í hástert, með mikilli kaldhæðni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.