Íslenski boltinn

Arnór Ingvi orðinn leik­maður KR

Aron Guðmundsson skrifar
Arnór Ingvi Traustason er mættur til KR og í Bestu deildina
Arnór Ingvi Traustason er mættur til KR og í Bestu deildina Norrköping

Þaulreyndi atvinnu- og landsliðsmaðurinn í fótbolta, Arnór Ingvi Traustason er orðinn leikmaður KR og skrifar undir samning í Vesturbænum út tímabilið 2028. Þetta staðfestir félagið í tilkynningu á samfélagsmiðlum.

Hinn 32 ára gamli Arnór Ingvi er uppalinn í Keflavík en hefur spilað úti í atvinnumennsku síðustu 11 ár. 

Lengst af spilaði hann í Svíþjóð með liðum á borð við Norrköping og Malmö en auk þess lék hann í Grikklandi, Austurríki, Bandaríkjunum og Noregi.

Þá á Arnór Ingvi einnig að baki 67 A landsleiki fyrir Íslands hönd.  Þar af voru þrír landsleikir á stórmóti. Alls hefur Arnór skorað sex mörk á sínum landsliðsferli. 

Ferilskrá Arnórs talar sínu máli þegar talað verður um það hvers konar leikmann úr efstu hillu KR er að fá í sínar raðir. 

Í tvígang hefur hann orðið sænskur meistari. Fyrst með Norrköping árið 2015 en síðan Malmö árið 2020. Þá var hann hluti af liði AEK sem varð grískur meistari árið 2018.

Alls á Arnór Ingvi að baki 220 leiki í efstu deild Svíþjóðar samkvæmt vefsíðunni Transfermarkt og hefur í þeim leikjum skorað 47 mörk og gefið 40 stoðsendingar.  Þar að auki býr hann að mikilli reynslu úr Evrópuboltanum. 

Félagsskipti Arnórs Ingva frá Norrköping til KR marka endurkomu hans í íslenska boltann en síðast spilaði Arnór í efstu deild hér á landi tímabilið 2013 með liði Keflavíkur. 

Alls á Arnór að baki 52 leiki í efstu deild hér á landi fyrir lið Keflavíkur og hefur í þeim leikjum skorað tíu mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×