Erlent

Mynd­skeið birt af Reiner eftir morðin og fyrir hand­töku

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Myndskeið hefur verið birt af Reiner sem er sagt sýna hann eftir morðin og áður en hann var handtekinn.
Myndskeið hefur verið birt af Reiner sem er sagt sýna hann eftir morðin og áður en hann var handtekinn.

Nick Reiner, sem er grunaður um að hafa myrt foreldra sína Rob og Michele Reiner, var leiddur fyrir dómara í gær. Athygli vakti að hann var íklæddur kyrtli sem notaður er fyrir fanga sem eru taldir í sjálfsvígshættu. Aðdragandi morðanna virðist vera að skýrast, ef marka má miðla vestanhafs.

Reiner hefur verið ákærður fyrir að myrða foreldra sína snemma á sunnudagsmorgun en hann hefur ekki tekið afstöðu til ákærunnar, það er að segja lýst sig sekan eða saklausan.

Greint hefur verið frá því að Reiner hafi yfirgefið samkomu á heimili þáttastjórnandans og grínistans Conan O'Brian á laugardagskvöld, eftir að hafa hegðað sér undarlega við gesti. Er hann meðal annars sagður hafa átt orðaskipti við leikarann Bill Hader. Reiner var í teitinu ásamt foreldrum sínum en virðist hafa farið einn.

Reiner bjó í gestahúsi á landareign foreldra sinna en er sagður hafa tékkað sig inn á hótel í Santa Monica eftir að hann yfirgaf teitið. Lögregla er sögð hafa leitað hans á hótelinu, þar sem blóð fannst á herbergi hans, en hann var þá farinn. Myndskeið hafa verið birt af Reiner að kaupa sér drykk í verslun, skömmu áður en hann er handtekinn. Handtakan náðist einnig á myndband.

Alsystkini Nick, Jake og Romy Reiner, hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau segjast nú upplifa ólýsanlegan sársauka vegna harmleiksins. Þau hafi ekki aðeins misst foreldra sína heldur einnig bestu vini sína. Þau þakka fyrir samhug og stuðning en biðja einnig um frið og biðla til fólks um að tempra vangaveltur með samkennd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×