Enski boltinn

Guardiola gagn­rýndi Foden þrátt fyrir markið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Phil Foden skoraði sitt tíunda mark á tímabilinu gegn Crystal Palace.
Phil Foden skoraði sitt tíunda mark á tímabilinu gegn Crystal Palace. getty/Vince Mignott

Þótt Phil Foden hafi skorað í 0-3 útisigri Manchester City á Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í gær gagnrýndi knattspyrnustjóri liðsins, Pep Guardiola, enska landsliðsmanninn eftir leikinn.

City minnkaði forskot Arsenal á toppi deildarinnar niður í tvö stig með sigrinum á Selhurst Park. Erling Haaland skoraði tvívegis og Foden var einnig á skotskónum og gerði sitt sjötta mark í síðustu fjórum deildarleikjum.

Þrátt fyrir markið hafði Guardiola ýmislegt við frammistöðu Fodens að athuga.

„Phil var ekki góður í dag [í gær] þrátt fyrir að fólk gæti litið það öðrum augum,“ sagði Guardiola eftir leikinn.

„Hann var ekki upp á sitt besta og tapaði boltanum oft. Hann var svo bráður í ákvörðunum sem hann tók og stressaður. Hann verður að spila, halda boltanum, tengja við aðra og sprengja síðan upp eins og hann einn getur með mörkum og stoðsendingum.“

Þrátt fyrir að Guardiola hafi verið ósáttur við hvað Foden gerði við boltann í leiknum gegn Palace hrósaði hann honum fyrir dugnað án boltans.

„Hann verður að vera rólegri. Hann vill alltaf gera vel og hjálpa öðrum,“ sagði Guardiola.

„En hvernig hann spilaði vörnina, pressaði og hljóp til baka var ótrúlegt. Þetta var ein hans besta varnarframmistaða. Hann hljóp kannski mest allra í liðinu og skoraði því nálægt vítateignum er hann ótrúlegur.“

City hefur unnið síðustu fjóra deildarleiki sína og skorað samtals fjórtán mörk í þeim.

Næsti leikur City er gegn Brentford á Etihad í enska deildabikarnum á miðvikudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×