Erlent

Geta fengið sex milljónir í bætur frá danska ríkinu

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Mette Frederiksen átti erfitt með tilfinningarnar þegar hún heimsótti Grænlandi í haust í þeim tilgangi að hitta og biðja konurnar afsökunar.
Mette Frederiksen átti erfitt með tilfinningarnar þegar hún heimsótti Grænlandi í haust í þeim tilgangi að hitta og biðja konurnar afsökunar. EPA/MADS CLAUS RASMUSSEN

Dönsk stjórnvöld hafa með stuðningi breiðs meirihluta danska þingsins gert samkomulag um fjárhæð bótagreiðslu til grænlenskra kvenna sem fengu setta upp getnaðarvarnalykkju gegn vilja sínum og vitund á árunum 1960 til 1991. Gert er ráð fyrir að um 4500 konur sem málið nær til geti sótt um bætur frá danska ríkinu sem nema um sex milljónum íslenskra króna.

Danska heilbrigðisráðuneytið greindi frá þessu í fréttatilkynningu í gær. Stjórnvöld höfðu þegar boðað að konurnar fengju greiddar bætur en það var ekki fyrr en í gær sem fyrir lá hversu háar þær yrðu.

Málið hefur verið svartur blettur í samskiptum landanna en það var ekki fyrr en fyrr á þessu ári sem Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, bað Grænlendinga og konurnar sem í hlut eiga formlega afsökunar fyrir hönd danska ríkisins.

Til að eiga rétt á greiðslu bótanna er skilyrði að konurnar hafi búið í Grænlandi eða hafa verið í heimavistarskóla í Danmörku á tímabilinu 1960 til 1991. Þar að auki skulu þær geta fært rök fyrir reynslu sinni og undirrita yfirlýsingu um að þær hafi fengið lykkjuna gegn eigin vilja og vitund.

Samkvæmt umfjöllun grænlenska miðilsins Sermitsiaq er gert ráð fyrir að lög um bæturnar taki gildi 1. júní á næsta ári og þá muni konurnar sem uppfylla skilyrði geta sótt um bætur upp á 300 þúsund danskar krónur, eða tæpar sex miljónir íslenskar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×